Innlent

Niðurfelling getur numið 15 milljónum

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Reykjavík.
Reykjavík.

Lántakar með íbúðalán sem eru með veðsetningu umfram 110 prósent af verðmæti fasteignar geta óskað eftir frekari niðurfellingu að því gefnu að mánaðarlegar greiðslur af lánum séu 18 prósent eða meira af tekjum eftir skatta, samkvæmt nýju samkomulagi um aðlögun fasteignalána.

Í gær var undirritað samkomulag um nánari útfærslu aðgerða í þágu yfirveðsettra heimila í samræmi við viljayfirlýsingu sem kynnt var í desember síðastliðnum.

Samkomulag sem undirritað var í gær er í megindráttum í samræmi við þau áform sem kynnt voru í desember. Heimilum þar sem áhvílandi veðskuldir eru umfram 110 prósent af verðmæti fasteignar býðst að færa veðskuldirnar niður í 110 prósent af verðmæti viðkomandi eigna. Þá geta einstaklingar fengið allt að fjögurra milljóna króna niðurfellingu og einstæðir foreldrar, sambýlisfólk og hjón allt að sjö milljóna króna niðurfellingu.

Lántakar sem eru með veðsetningu umfram 110 prósent af verðmæti fasteignar, þrátt fyrir lækkun veðskulda um fjórar eða sjö milljónir króna, geta óskað eftir frekari niðurfellingu og getur hún í heild sinni numið fimmtán milljónum króna hjá einstalingum og þrjátíu milljónum króna hjá einstæðum foreldrum, sambýlisfólki og hjónum. Mörk niðurfellingar ráðast af 110 prósenta veðsetningarhlutfalli og að mánaðarlegar greiðslur af lánum séu 18 prósent af tekjum eftir skatta eða hærra hlutfall.

Skuldir sem færa má niður samkvæmt samkomulaginu sem undirritað var í gær eru skuldir sem stofnað var til vegna fasteignakaupa á árunum fyrir árið 2009.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×