Innlent

Birgitta vill svör frá Facebook og Google

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar.
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar. Mynd/Stefán Karlsson
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, íhugar að fara fram á að fyrirtækin Facebook, Google og Skype upplýsi hvort þau hafi veitt bandaríska dómsmálaráðuneytinu upplýsingar um hana. Þá segist hún ekki vera fylgjandi þinghelgi. Rætt var við Birgittu í Kastljósi fyrr í í kvöld.

Líkt og fram hefur komið hefur bandaríska dómsmálaráðuneytið farið fram á að samskiptasíðan Twitter afhendi ráðuneytinu allar færslur Birgittu og aðrar persónuupplýsingar hennar í tengslum við sakamálarannsókn á þætti hennar í leka Wikileaks.

„Ég er ekkert endilega hlynnt þinghelgi eða að eitthvað annað fólk sé yfir lög hafið. En það eru reglurnar sem við spilum eftir í dag og þá ber að fara eftir því í alþjóðasamhengingu. Ef það er samþykkt þegjandi og hljóðalaust að bandarískt yfirvöld geti sett út sín veiðinet til að ná í upplýsingar um þingmenn á þennan hátt til þess að reyna að búa til mál sem snýr í raun og veru að því að gera það að glæpsamlegu athæfi að leka gögnum. Allir borgarar hafa ákveðnum skyldum að gegna og ein af þeim er að tilkynna um glæpsamlegt athæfi," sagði Birgitta.

Bandarískir lögfræðingar Birgittu kanna nú réttarstöðu hennar gagnvart bandarískum dómsmálayfirvöldum. „Jafnframt er ég alvarlega að athuga hvort það sé ekki ástæða til þess að biðja þá um fyrir mína hönd að fá upplýsingar frá Google, Facebook og jafnvel Skype því Twitter er kannski sú samskiptasíða sem hefur að geyma minnstar upplýsingar um menn," sagði Birgitta. Gagnlegt væri að vita hvort umrædd fyrirtæki hefðu afhent dómsmálaráðuneytinu gögn um hana.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×