Innlent

Bankarnir eru ekki alvöru bankar heldur innheimtufyrirtæki

Helga Arnardóttir skrifar
Hæstaréttarlögmaður hvetur fólk sem skrifað hefur upp á fyrir vini og vandamenn að kanna hvort greiðslumat hafi farið fram við lántöku áður en þeir borga skuldir í vanskilum. Bankastofnanir eigi ekki frumkvæði að því að kynna fólki rétt sinn.

Þótt samkomulag um notkun sjálfskuldarábyrgða hafi verið til staðar frá í rúman áratug vita fáir af því. Það telst ekki lög en dómstólar telji það engu að síður bindandi fyrir fjármálastofnanir. Samkomulagið kveður á um að lántakandi fari í greiðslumat áður en ábyrgðarmaður skrifar undir skuldbindinguna. Björn Þorri Viktorsson hæstaréttarlögmaður segist í nokkur skipti hafa lagt fram þetta samkomulag vegna sinna skjólstæðinga sem hafa þurft að gangast í ábyrgðir og í nær öllum tilvikum hafi þær verið felldar niður.

„Ef greiðslumat hefur ekki verið gert þá er einfaldlega ábyrgðin ógild hvort sem það er sjálfskuldarábyrgð eða veðtrygging," segir Björn Þorri.

Samkomulagið sé ekki lög en telst bindandi og hefur það verið staðfest í Hæstarétti.

Björn Þorri ekki dæmi þess að bankarnir og önnur fjármálafyrirtæki greini fólki frá þessu samkomulagi. Hann hvetur fólk til að kanna rétt sinn áður en það greiðir skuldir sem það hefur ábyrgst.

„Bankarnir reyna auðvitað að rukka peninga. Þeir eru ekkert alvöru bankar í dag því þeir eru bara innheimtufyrirtæki sem lána ekki neina fjármuni. Þeir rukka bara endalaust og hafa ekki frumkvæði að því að benda fólki á hvaða leiðir fólk getur farið til að komast undan meintum skuldbindingum."

En hvað með þá ábyrgðarmenn sem nú þegar hafa greitt skuldir vina sinna eða vandamanna?

„Þá auðvitað koma inn í myndina sjónarmið um það að menn hafi greitt skuldina án fyrirvara og kunna þess vegna að vera bundnir við það," segir Björn Þorri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×