Innlent

Enginn alvarlega slasaður - flestir útskrifaðir

Áreksturinn var harður. Mun betur fór en á horfðist í upphafi.
Áreksturinn var harður. Mun betur fór en á horfðist í upphafi.

Búið er að útskrifa flesta þá tíu sem voru færðir á slysadeild Landspítalans síðdegis í gær eftir tvö umferðaróhöpp á Reykjanesbrautinni. Að sögn vakthafandi læknis þurftu nokkrir að gista yfir nóttina á spítala til frekari aðhlynningar.

Þá var ein kona lögð inn á kvennadeildina, en samkvæmt heimildum Vísis var hún ólétt. Hún lenti í bílveltu sem varð skömmu eftir að tveir bílar rákust saman í Kúgerði á Reykjanesbrautinni.

Enginn slasaðist alvarlega þrátt fyrir harðann árekstur. Meðal annars þurfti að klippa ökumann út úr bifreiðinni í gær.

Alls þurftu átta sjúkrabílar að ferja hina slösuðu á spítala. Bæði slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu og slökkviliðið á Suðurnesjum unnu saman að því að flytja hina slösuðu á spítala.

Orsök slyssins er talin vera mikil ísing sem varð á veginum. Svipað veður er í dag og varar lögreglan á Suðurnesjum ökumenn sérstaklega við og biður þá um að fara varlega þegar þeir aka Reykjanesbrautina. Vegagerðin vann við að salta vegina í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×