Innlent

Ekki snjóflóðahætta í þéttbýli

Veðurstofan fylgist grannt með framvindu mála eftir snjóflóð norðan heiða.
Veðurstofan fylgist grannt með framvindu mála eftir snjóflóð norðan heiða.

Snjóflóð Veðurstofa Íslands fylgist grannt með aðstæðum á snjóflóðahættusvæðum eftir nokkur snjóflóð sem fallið hafa á Norðurlandi í vikunni.

Flóð féllu í Ljósavatnsskarði og í Fnjóskadal, fjarri byggð, og rétt utan við byggð í Siglufirði. Esther Hlíðar Jensen, jarðfræðingur á Veðurstofu, segir í samtali við Fréttablaðið að engar aðgerðir séu fyrirhugaðar í bili. Veðurstofa fylgist með ástandinu á Norðurlandi en einnig á Vestfjörðum og Austurlandi.

„Við erum að fylgjast með stöðunni eins og er þar sem við teljum ekki hættu á flóðum í þéttbýli og það eru engar rýmingar áformaðar. Við fylgjumst með veðri og skráum öll flóð sem verða því að það segir til um framhaldið. Fleiri flóð gætu orðið til þess að annað viðbúnaðarstig fari í gang.“

Nálgist flóð þéttbýli er ástand uppfært í svokallað óvissustig en rýmingarstig er þar fyrir ofan.

Á vef Veðurstofunnar er fólk varað við að vera á ferð á Norðurlandi þar sem flóð geta fallið og bent á að leggja ekki bílum á flóðasvæðum. - þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×