Innlent

Kaupmáttur verði að aukast

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.

Forseti Alþýðusambandsins segir að kaupmáttur verði að aukast með næstu kjarasamningum og hugmyndir atvinnurekenda um launahækkanir séu langt frá því að duga til þess. Þá verði að færa lífeyriskjör almennings til móts við kjör opinberra starfsmanna.

Forystumenn Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambandsins eiga í sitthvoru lagi fund með forsætis- og fjármálaráðherra í dag til að fara yfir stöðuna í kjaramálum og mögulega aðkomu stjórnvalda að samningagerðinni. Gyfli Arnbjörnsson forseti ASÍ segir að kannað verði hvort hægt sé að ná fram breiðri samstöðu sem dugi til að koma hjólum atinnulífsins af stað og tryggja kaupmátt. Kjarasamningar eru í höndum einstakra aðildarfélaga ASÍ en kanna eigi hvort grundvöllur sé fyrir víðtækara samstarfi. Eitt af því sem ræða þurfi við stjórnvöld sé jöfnun lífeyrisréttinda almennings og opinberra starfsmanna.

Þá segir Gylfi það ljóst að við efnahagshrunið hafi almenningur tekið á sig skert lífeyrisréttindi á sama tíma og lífeyrissjóðir opinberra starfsmanna voru ríkistryggðir. Ekki sé hægt að horfa fram hjá þessu við gerð kjarasamninga nú. Fulltrúar Alþýðusambandsins funduðu síðast í gær með fulltrúum Samtaka atvinnulífsins og Gylfi segir að það hafi í sjálfu sér verið ágætis fundur. En forystumenn Samtaka atvinnulífsins hafa viðrað hugmyndir um kjarasamning til allt að þriggja ára með launahækkunum upp á 7 - 8 prósent. Gylfi segir það ekki duga, verkefnið sé að auka kaupmátt launafólks.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×