Innlent

Þunguð kona slapp ótrúlega vel frá bílveltum - bíllinn gjörónýtur

Valur Grettisson skrifar
Ólétt kona slapp ótrúlega vel frá þremur bílveltum.
Ólétt kona slapp ótrúlega vel frá þremur bílveltum.

Ótrúleg mildi þykir að þunguð kona hafi sloppið nær ómeidd eftir bílveltu á Reykjanesbrautinni síðdegis í gær. Með konunni var eins árs gamalt barn sem var fest í barnabílstól.

Alls fór bíllinn þrjár veltur og er gjörónýtur. Samkvæmt vakthafandi lækni á kvennadeild Landspítalans þykir það ótrúleg mildi að konan, sem var gengin 32 vikur, eða um átta mánuði, hafi sloppið svo vel frá slysinu. Konan meiddist lítillega á höfði en að öðru leytinu til heilsast henni, barni og fóstri ótrúlega vel. Ekkert amaði að árs gamla barninu þrátt fyrir velturnar.

Læknum þótti ráðlegast að halda konunni yfir nótt á spítala svo hægt væri að fylgjast með líðan hennar. Búist er við að hún verði útskrifuð af spítalanum nú síðdegis.

Alls voru tíu einstaklingar fluttir á spítala eftir tvö ótengd umferðaróhöpp á Reykjanesbrautinni síðdegis í gær. Í raun má segja að ellefu hafi verið fluttir á spítala sé fóstur móðurinnar talið með.

Annars vegar lentu tvær bifreiðar í hörðum árekstri. Svo valt bíll konunnar örskömmu síðar. Talið er að bæðin slysin megi rekja til hálku. Launhált var á Reykjanesbrautinni í gær. Lögreglan á Suðurnesjum hefur varað ökumenn við í dag vegna svipaðra aðstæðna á Reykjanesbrautinni og í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×