Innlent

Þingið getur ákveðið að segja stopp

Árni Þór Sigurðsson
Árni Þór Sigurðsson

Þótt í þingsályktun Alþingis sé ekki gert ráð fyrir öðru en að aðildarviðræðunum við ESB ljúki með samningi sem borinn verður undir þjóðina settu forystumenn VG fyrirvara í umræðum um málið.

Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar, sagðist í umræðunum í júlí 2009 vilja halda því til haga að stjórnvöld gætu hvenær sem væri dregið sig út úr viðræðunum, „ef þeim þykir einsýnt að hagsmunum Íslands verði áfram betur borgið utan sambandsins eða fyrir liggi að ekki náist ásættanlegur aðildarsamningur“. Ályktun Alþingis þyrfti til að hætta viðræðunum.

Árni Þór ítrekaði þetta sjónarmið í Fréttablaðinu á miðvikudag. Tók hann jafnframt fram að hann teldi ástæðulaust að huga að viðræðuslitum nú.

„Ég er enn þeirrar skoðunar að það eigi að halda viðræðum við ESB áfram, ljúka þeim og leggja niðurstöðuna í almenna þjóðaratkvæðagreiðslu,“ sagði Árni í samtali í gær, en Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur túlkað orð Árna frá því á miðvikudag þannig að um stefnubreytingu sé að ræða.

Í áðurnefndum þingumræðum talaði Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, á sömu leið og Árni. „Við áskiljum okkur [...] líka rétt til þess á hverju stigi málsins sem er að leggja það til að samningaviðræðunum verði hætt og það á Alþingi líka að gera.“

Ekki kom til þess að þingið setti ákvæði í þessa veru inn í ályktunina.- bþs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×