Innlent

Ódýrast að fljúga Vestur um haf með Delta í sumar

New York.
New York.

Flugfélagið Delta, sem mun hefja flug til Íslands frá Bandaríkjunum í sumar, mun bjóða upp á ódýrustu flugin til New York frá Keflavíkurflugvelli fyrri hluta sumarsins. Þetta kemur fram í verðkönnun sem heimasíðan Túristi.is vann.

Þann fyrsta júní hefst áætlunarflug bandaríska félagsins Delta milli New York og Keflavíkur. Upphaflega stóð til að fljúga daglega en þeim áformum var breytt í nóvember og niðurstaðan er fimm flug í viku. Delta verður þriðji valkosturinn sem Íslendingar hafa til að ferðast til austurstrandar Bandaríkjanna en Iceland Express hóf flug þangað síðasta sumar. New York hefur verið hluti að leiðarkerfi Icelandair í tugi ára. Sparnaðurinn verður hinsvegar aldrei minni en tíu þúsund krónur.

Þegar verð félaganna þriggja er skoðað kemur í ljós að það bandaríska býður töluvert lægri verð en þau íslensku frá byrjun júní og fram í miðan júlí. Helgarferð með Delta (fimmtudagur til sunnudags) kostar 53.470 krónur á þessu tímabili sem er að minnsta kosti sex þúsund krónum ódýrara en lægsta verð Iceland Express, 59.740 krónur. Verðmunurinn er ennþá meiri þegar vikuferðalag, sem byrjar og endar á föstudegi, er pantað. Þá er munurinn ekki minni en rúmlega tíu þúsund krónur. Ódýrasti miðinn hjá Delta kostar þá líka 53.370 krónur en 64.320 hjá Icelandair sem er næst ódýrast. Frá miðjum júlí hækkar verðið hins vegar hratt hjá Delta og Iceland Express verður ódýrast.

Túristi bar aðeins saman dagsetningar þar sem öll þrjú félögin fljúga en bandaríska félagið fer ekki frá Keflavík þriðjudaga og miðvikudaga. Séu aðrar samsetningar daga prófaðar geta verðið verið allt önnur.

Dýrasta helgarferð sumarsins (fimmtudagur til sunnudags) er með Delta þann 28. til 31. júlí. Hún kostar þá 139.579 kr. sem er næstum tvöfalt hærra verð en greiða þarf hjá Iceland Express þessa sömu helgi eða 72.200 kr. Icelandair var aldrei með lægsta verðið í könnun Túrista en hafa ber í huga að félagið er það eina sem býður upp á fleiri en eitt flug á dag og um leið frían aðgang að afþreyingarkerfi sínu.

Hjá hinum þarf að greiða sérstaklega fyrir þess háttar þjónustu. Léttar veitingar eru jafnframt seldar hjá Iceland Express en eru fríar hjá hinum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×