Innlent

H&M ekki til Íslands í bráð

Einhver bið verður á því að H&M opni á Íslandi. Fjölmiðlafulltrúi fyrirtækisins segir það í það minnsta ekki á dagskránni.
NordicPhotos/Getty
Einhver bið verður á því að H&M opni á Íslandi. Fjölmiðlafulltrúi fyrirtækisins segir það í það minnsta ekki á dagskránni. NordicPhotos/Getty

Ísland virðist vera úti í kuldanum hjá sænsku fatakeðjunni H&M. Eins og Fréttablaðið greindi frá fyrir skemmstu heimsóttu fulltrúar frá sænsku fatakeðjunni Reykjavík fyrir jól og skoðuðu hentugt verslunarhúsnæði í miðborginni, Kringlunni og Smáralind. Þeir sem lóðsuðu þá um verslunarkjarnana sögðu fulltrúana hafa verið nokkuð spennta fyrir að opna hér verslun en H&M hefur verið ákaflega vinsæl verslun meðal íslenskra ferðalanga erlendis.

Håkan Andersson hjá fjölmiðladeild H&M sagði hins vegar ekkert í plönunum hjá H&M um að opna hér verslun. „Það eru margar H&M-búðir sem eru í burðarliðnum en það er ekkert staðfest að H&M sé að opna á Íslandi og þangað til er þetta bara orðrómur. Auðvitað hafa mörg markaðssvæði áhuga á að fá H&M til sín og þessi mál eru í sífelldri endurskoðun,“ segir Håkan.

Hann bætir því við að verslanakeðjan sjái sjálf um að opna sínar búðir í hverju landi fyrir sig en sé ekki með umboðsaðila eins og stundum tíðkast. Íslendingar geta huggað sig við að fleiri lönd bíða enn eftir innrás sænsku fatakeðjunnar, flest Balkanlöndin eru ekki með H&M-verslanir, sem og fyrrverandi lýðveldi Sovétríkjanna eins og Litháen, Lettland, Hvíta-Rússland og Eistland.- fgg




Fleiri fréttir

Sjá meira


×