Innlent

Sjálfstæðismenn efast um heimild mannréttindaráðs

Meirihluti fulltrúa í borgarráði hefur lagt fram tillögur um samskipti trúfélaga og skóla
Meirihluti fulltrúa í borgarráði hefur lagt fram tillögur um samskipti trúfélaga og skóla
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í borgarráði óskuðu eftir því á borgarráðsfundi í gær að borgarlögmaður kannaði heimild mannréttindaráðs til þess að leggja fram og samþykkja tillögur er hafa veruleg áhrif á starfsemi annarra sviða Reykjavíkurborgar. Er þetta gert í ljósi þess að fyrir liggur í mannréttindaráði tillaga meirihlutans í borgarráði um samskipti trúfélaga og skóla. Sjálfstæðismönnum þykir ólíklegt að slík heimild sé til staðar þar sem á ráðið fyrst og fremst að gegna ráðgefandi hlutverki, samkvæmt samþykktum Reykjavíkurborgar.

Fyrirspurnin í heild sinni:

„Mannréttindaráð er fagsviðum til samráðs og ráðgjafar um forgangsröðun verkefna á sviði mannréttindamála skv. 3 gr. d. í samþykkt fyrir Mannréttindaráð Reykjavíkurborgar frá 18. 12. 2007. Ráðið hefur ekki stefnumarkandi hlutverk eða boðvald yfir öðrum fagráðum, sviðum eða stofnunum borgarinnar. Menntaráð fer með hlutverk skólanefnda eins og það er skilgreint í lögum um grunnskóla nr. 91 frá 2008, einkum 6. gr. laganna. Óskað er álits borgarlögmanns á heimild mannréttindaráðs til þess að setja menntaráði reglur um fyrirkomulag kennslu og samskipti skóla og trúfélaga. Vísað er í því sambandi til samþykktar mannréttindaráðs frá 12.10.2010."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×