Innlent

Mál Þorsteins Kragh ekki tekið upp aftur

Breki Logason skrifar
Hæstiréttur mun ekki taka upp mál Þorsteins Kragh sem nú afplánar níu ára fangelsisdóm vegna innflutnings á tæpum 200 kílóum af fíkniefnum. Þorsteinn hafði óskað eftir endurupptöku meðal annars vegna nýrra gagna sem hann telur hafa komið fram í málinu.

Þorsteinn er talinn hafa annast fjármögnun og kaup fíkniefnanna sem Hollendingurinn Jacob van Hinte kom með hinagð til lands.

Jacob afplánar nú sinn dóm í Hollandi en skömmu áður en hann fór héðan ritaði hann bréf þar sem hann segist ranglega hafa bendlað Þorstein við málið. Nefnir hann mann frá Marokkó og hollensk fíkniefnasamtök sem hann segir standa á bak við innflutninginn.

Þorsteinn telur þetta kalla á frekari rannsókn á málinu og vill því að Hæstiréttur taki það upp að nýju. Bendir hann á í bréfi sem hann sendi Hæstarétti vegna málsins að hann hafi ávalt neitað sök, engin gögn sýni að hann hafi keypt eða selt fíkniefnin eða fjármagnað fíkniefnakaupin.

Samkvæmt lögum verða einhver af eftirfarandi skilyrðum að vera fyrir hendi til þess að mál verði tekið upp að nýju:

a. fram eru komin ný gögn sem ætla má að hefðu verulega miklu skipt fyrir niðurstöðu málsins ef þau hefðu komið fram áður en dómur gekk.

b. ætla má að lögregla, ákærandi, dómari eða aðrir hafi haft í frammi refsiverða háttsemi í því skyni að fá fram þau málalok sem orðin eru, svo sem ef vitni eða aðrir hafa vísvitandi borið ranglega fyrir dómi eða fölsuð skjöl verið lögð fram og það hefur valdið rangri niðurstöðu málsins.

c. verulegar líkur eru leiddar að því að sönnunargögn sem færð voru fram í máli hafi verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess,

d. verulegir gallar hafa verið á meðferð máls þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess

Í rökstuðningi Hæstaréttar er bréf Jacobs dregið í efa og lýsing hans sögð með ólíkindum. Þessi frásögn sé fjórða lýsing hans á málinu en framburður hans fyrir héraðsdómi hafi meðal annars verið talin ótrúverðugur. Hæstiréttur sér því ekki að ný gögn séu komin fram í málinu og bendir á að Þorsteinn færi engin rök fyrir því að verulegir gallar hafi verið á meðferð málsins.

Beiðni Þorstein um endurpptöku er því hafnað.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×