Innlent

Tollurinn hirti gjafirnar

Óliðlegheit fjármálaráðuneytis og tollstjóra gerði það að verkum að kylfur sem Íshokkísamband Íslands átti að fá að gjöf, komust aldrei í hendur barna sem íþróttina stunda. Kylfurnar voru boðnar upp og slegnar hæstbjóðanda en þær er nú hægt að fá í Rúmfatalagernum.

Málið snýst um 500 kylfur sem Alþjóða íshokkísambandið gaf íslensku sambandinu að gjöf. Nokkuð treglega gekk hins vegar að fá kylfurnar sem sátu fastar í tollinum.

Íshokkísamband Íslands hefur fengið styrk sem þennan annaðhvert ár síðan árið 1996 en hann er hugsaður fyrir þá sem eru að stíga sín fyrstu spor í íþróttinni. Styrkurinn er ávalt í formi búnaðar og í gegnum árin hefur sambandið fengið vörugjöld og virðisaukaskatt felldan niður af gjöfunum.

„Þetta er í raun og veru þróunarstyrkur. Það er verið að hjálpa til við að byggja upp íþróttina og þar sem við höfum fengið þetta fellt niður mörg ár á undan þá héldum við að slíkt myndi gilda núna líka en það var ekki raunin," segir Viðar Garðarsson, formaður Íshokkísambands Íslands.

Sambandið hefði þurft að greiða á bilinu fjögur til fimm hundruð þúsund krónur til þess að fá kylfurnar sem enduðu á uppboði, en sambandið treysti sér í að greiða 100 þúsund krónur, og bauð þá upphæð.

Aðili úti í bæ fékk kylfurnar 500 síðan fyrir 180 þúsund krónur en Viðar segir hluta af þeim nú vera til sölu meðal annars í Rúmfatalagernum. Samkvæmt upplýsingum þaðan er hægt að fá kylfu fyrir 2495 krónur.

Viðar segist skilja lagalegu rökin. „En svo spyr maður sig á móti, Íslendingar eru að senda þróunaraðstoð hingað og þangað í heiminum og því yrði eflaust óstinnt tekið upp ef að tollayfirvöld í viðkomandi landi ætluðu að fara að reyna að hagnast á þeirri þróunaraðstoð sem við erum að senda frá okkur. Menn ættu kannski bara að snúa við blaðinu og horfa á þetta gegnsæjum augum. Við teljum þetta fullkomlega óeðlilega afgreiðslu og hún kemur niður á börnum og byrjendum sem eru að reyna að stunda íþróttir."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×