Innlent

Bryggjuhverfisbúar sviknir um brotthvarf sandvinnslu

Ásgeir Erling Gunnarsson, formaður íbúasamtaka Bryggjuhverfisins, segir borgina vilja spyrða hverfið saman við Grafarvog en þar hafi menn engan áhuga á málefnum Bryggjuhverfisins. Í bakgrunni sést grasmön við lóð Björgunar sem fyrirtækið útbjó til að hefta sandfok.Fréttablaðið/Stefán
Ásgeir Erling Gunnarsson, formaður íbúasamtaka Bryggjuhverfisins, segir borgina vilja spyrða hverfið saman við Grafarvog en þar hafi menn engan áhuga á málefnum Bryggjuhverfisins. Í bakgrunni sést grasmön við lóð Björgunar sem fyrirtækið útbjó til að hefta sandfok.Fréttablaðið/Stefán

Ásgeir Erling Gunnarsson, formaður bryggjuráðsins, sem er íbúaráð Bryggjuhverfisins í Reykjavík, segir borgina hafa gert hverfið algerlega hornreka.

Fyrirtækið Björgun hóf byggingu Bryggjuhverfisins við hlið athafnasvæðis síns í Grafarvogi laust fyrir síðustu aldamót. Ásgeir segir frumbyggjunum hafa verið lofað því að Björgun yrði farin af lóð sinni vestan við íbúabyggðina árið 2000 og að síðan yrði lokið við að byggja hverfið upp. Síðasta dagsetningin sem gefin hafi verið upp fyrir brotthvarf Björgunar hafi verið 9. september í haust sem leið.

„Björgun hefur margsinnis ítrekað að fyrirtækið er tilbúið til að fara um leið og borgin hefur tilbúna lóð sem er búið að lofa því uppi í Álfsnesi,“ segir Ásgeir. Hann ítrekar að borgin verði að svara því hvað eigi að vera á svæðinu þar sem Björgun er nú að hefjast handa við skipulagningu þess. Ljúka verði við hverfið svo það nái eðlilegri stærð. Í dag sé það aðeins um þriðjungur þess sem það ætti að vera með um sjö hundruð íbúum.

„Börnin sækja skóla í Hamrahverfinu. Það er einfaldlega engin þjónusta frá borginni inni í þessu hverfi – ekki eitt einasta strætóskýli.“

Ásgeir segir borgaryfirvöld spyrða Bryggjuhverfið við Grafarvoginn. Hann sé áheyrnarfulltrúi Bryggjuhverfisins í hverfisráði Grafarvogs þar sem undirtektir við málstað Bryggjuhverfisins séu engar. „Ég held að ég segi mig úr hverfisráðinu ef það gerist ekkert á næsta fundi,“ segir hann.

Bryggjuhverfið er kennt við smábátahöfn sem Björgun gerði. Að sögn Ásgeirs tók Reykjavíkurborg höfnina yfir fyrir nokkrum misserum samkvæmt fyrri samningi við Björgun. Síðan hafi verulega sigið á ógæfuhliðina.

„Við í stjórn íbúasamtakanna höfum miklar áhyggjur af því að höfnin sé að fyllast af sandi. Björgun hefur haldið þessu hreinu og dýpkað undanfarin ár en síðasta sumar var borgin komin í spilið og þá var nánast engin dýpkun. Mér sýnist útlitið ekki gott og ég veit eiginlega ekki við hvern á að tala í dag hjá þessari blessaðri borg,“ segir Ásgeir sem kveður tíu til tuttugu báta nota smábátahöfnina á sumrin. Eigendur bátanna séu bæði íbúar Bryggjuhverfisins og aðrir.

„Þeir myndu væntanlega vera miklu fleiri ef höfnin væri eins og höfn á að vera – með innsiglingarljós og rétt dýpi svo bátarnir taki ekki niðri á fjöru.“

gar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×