Innlent

Mótmæla harðlega niðurskurði til Strætó

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Gísli Marteinn Baldursson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir borgarbúum hafi verið lofað bættum samgöngum.
Gísli Marteinn Baldursson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir borgarbúum hafi verið lofað bættum samgöngum.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í umhverfis- og samgönguráði Reykjavíkur mótmæltu harðlega þeim niðurskurði sem verður á fjárveitingum til Strætó á þessu ári.

Sjálfstæðismenn segja að í fjárhagsáætlun borgarinnar séu framlög Reykjavíkur til Strætó bs. skorin niður um rúm 5%, sem hafi kallað á umtalsverða fargjaldahækkun og muni leiða til verulegrar skerðingar á þjónustu innan fárra vikna. Strætó muni byrja akstur síðar á morgnana og hætta akstri fyrr á kvöldin. Þjónusta um helgar verði einnig skert verulega.

„Það er einkennilegt viðhorf til almenningssamgangna að skerða þjónustuna og hækka gjöldin, á sama tíma og borgarbúar kalla eftir aukinni þjónustu, einsog komið hefur fram í könnunum," segir Gísli Marteinn Baldursson fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í umhverfis- og samgönguráði í tilkynningu til fjölmiðla. „Sérstaklega er það einkennilegt í ljósi þess að allir flokkar lofuðu borgarbúum bættum almenningssamgöngum með aukinni tíðni, en ekki minnkaðri eins og nú verður raunin," segir Gísli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×