Innlent

14% fullorðinna reykja daglega

Nýjar tölur yfir umfang reikinga á Íslandi sýna að tíðni daglegra reykinga fullorðinna heldur áfram að lækka. Um 14% fullorðinna reykja daglega hér á landi.

Um er að ræða árlegar kannanir á umfangi reykinga sem Capacent-Gallup sér um fyrir Lýðheilsustöð. Skýrslan er samantekt úr fjórum könnunum sem unnar voru á tímabilinu febrúar til desember 2010 en þar kemur fram að tíðni reykinga fullorðinna mælist 14,2% samanborið við 15,4% fyrir árið 2009.

Á heimasíðu Lýðheilsustöðvar segir að athyglisvert sé að sjá að íslenskar konur hafa tekið sig á og hætt að reykja í meira mæli en áður. Þegar tölurnar fyrir síðustu 3 ár eru skoðaðar þá hafa karlarnir vinninginn, það er, mun fleiri karlar hafa hætt að reykja á því tímabili en konur.

Úr niðurstöðunum má greina marktækan mun á reykingum eftir menntun. Eftir því sem fólk er meira menntað því minna er um að það reyki.

Nýverið birti ÁTVR tölur um töluverða minnkun á innflutningi á tóbaki á síðasta ári og rímar sú minnkun ágætlega við niðurstöður þessarar könnunnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×