Innlent

Friður á vinnumarkaði afar mikilvægur

Forsætisráðherra segir fundina með forsvarsmönnum ASÍ og SA fyrr hafa verið góða.
Forsætisráðherra segir fundina með forsvarsmönnum ASÍ og SA fyrr hafa verið góða. Mynd/Anton Brink
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, hvatti í dag forsvarsmenn ASÍ og Samtaka atvinnulífsins til að gæta hófs í kröfugerð á hendur ríkinu svo aðhalds- og stöðugleikamarkmiðum ríkisstjórnarinnar verði ekki stefnt í hættu.

Forystumenn Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambandsins áttu í sitthvoru lagi fund með Jóhönnu og Steingrími J. Sigfússyni, fjármálaráðherra, í dag til að fara yfir stöðuna í kjaramálum og mögulega aðkomu stjórnvalda að samningagerðinni. Jóhanna fjallar um fundina á síðu sinni á samskiptavefnum Facebook. Þar segir hún að góða fundi hafi verið að ræða.

„Fátt er mikilvægara fyrir hag almennings og fyrirtækja en að áframhaldandi friður ríki á vinnumarkaði og að sátt náist sem fyrst um sanngjarnar og raunhæfar kjarabætur. Ríkisstjórnin mun leggja sitt af mörkum til að svo geti orðið," segir forsætisráðherra.

Fyrr í dag sagði Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, að kaupmáttur verði að aukast með næstu kjarasamningum og hugmyndir atvinnurekenda um launahækkanir séu langt frá því að duga til þess. Þá verði að færa lífeyriskjör almennings til móts við kjör opinberra starfsmanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×