Innlent

Enn aukast álögur á borgarbúa

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Orkuveita Reykjavíkur.
Orkuveita Reykjavíkur.
Eigendur húsnæðis í Reykjavík geta átt von á hærri álögum frá Orkuveitu Reykjavíkur. Þetta er vegna breytinga á fráveitugjaldi. Breytingarnar hafa í för með sér að fráveitugjaldið mun hér eftir taka mið af stærð húsnæðis, eins og vatnsgjaldið, en ekki fasteignamati eins og hingað til.

Fram kemur í tilkynningu frá Orkuveitu Reykjavíkur að áhrif á einstaka gjaldendur eru misjöfn. Í Reykjavík koma þær eignir sem hafa hátt fasteignamat miðað við fermetrafjölda hagstæðar út úr breytingunni en þar sem matið er lágt á hvern fermetra húsnæðis. Eigendur húsnæðis sem er minna en 200 fermetrar og fasteignamat í meðallagi geta átt von á hækkun sem nemur um 12%. Það eru 82% húseigna í Reykjavík. Orkuveitan segir að almennt megi reikna með að hækkunin verði meiri á stærri eignir en rétt sé að ítreka að um meðaltöl er að ræða. Breyting á upphæð gjaldsins fyrir hverja eign veltur alfarið á áðurnefndu samhengi fermetrafjölda og fasteignamats.

Þá hefur Orkuveita Reykjavíkur tekið við innheimtu vatns- og fráveitugjalda í þeim fjórum sveitarfélögum þar sem fyrirtækið á og rekur þessar veitur - í Reykjavík, á Akranesi og í Borgarbyggð. Greiðendur munu fá sérstakan álagningarseðil frá OR ásamt upplýsingabæklingi um breytinguna. Hingað til hefur verið greitt fyrir þjónustuna með fasteignagjöldum sveitarfélaganna. Greiðslum samkvæmt álagningunni verður dreift á níu gjalddaga yfir árið og munu greiðendur fá senda greiðsluseðla með rafrænum hætti í heimabanka. Einnig mun gefast kostur á að greiða í einu lagi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×