Innlent

Keppir við þær bestu á Norðurlandamóti í súlufimi í Stokkhólmi

Eva Rut æfir nú fimm sinnum í viku fyrir Norðurlandamót í súlufimi. Mynd/Vilhelm
Eva Rut æfir nú fimm sinnum í viku fyrir Norðurlandamót í súlufimi. Mynd/Vilhelm

„Ég var samþykkt inn í keppnina í lok nóvember og er búin að æfa fimm sinnum í viku ásamt því að teygja á hverjum degi. Ég þarf helst að komast í splitt, sem er eitthvað sem ég hef aldrei gert áður," segir Eva Rut Hjaltadóttir, bassaleikari hljómsveitarinnar Elektru og keppandi í súlufimi.

Eva er á leiðinni á Norðurlandamótið Battle of the Pole í Stokkhólmi í næstu viku. Hún hefur stundað íþróttina í rúmt ár og keppir því í svokölluðum „kitt­ens"-flokki ásamt átta öðrum konum og körlum frá Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi. Reynslumeiri keppendur keppa í „lionesses"-flokki.

Eva stundar nú strangar æfingar og játar að það væri þægilegt að geta verið með súlu heima. „Ég fer bara upp í Xform-stúdíó þar sem ég er að æfa og kenna. Ég get farið þangað á hvaða tíma sólarhringsins sem er, sem er fínt," segir hún.

Fyrsta Íslandsmeistaramótið í súlufimi fór fram í september í fyrra. Sólveig Steinunn Pálsdóttir stóð uppi sem sigurvegari, en Eva hafnaði í öðru sæti. Íþróttin nýtur vaxandi vinsælda á Íslandi og þeim sem stunda súlufimi fjölgar stöðugt. Eva segir súlufimina vera hörkupúl, en hún prófaði íþróttina í gríni á sínum tíma og varð að eigin sögn háð.

„Ég hef aldrei þolað íþróttir," segir hún og rifjar til gamans upp endasleppan íþróttaferil: „Ég fór pínulítið í fimleika þegar ég var sjö ára og það hötuðu mig allir í leikfimi í skólanum því ég nennti ekki að taka þátt."

Það er til mikils að vinna fyrir Evu því sigurvegari Battle of the Pole fær meðal annars að launum 500 evrur, eða um 77.000 krónur, farandbikar og súlu. Á meðal þess sem dómararnir leita eftir, samkvæmt vefsíðu keppninnar, er frumleiki í danssporum, sköpunargáfa, framkvæmd, styrkur og þokki. Þá skipta klæðnaður og tónlist einnig máli.

Aðspurð að lokum hvort hún njóti aðstoðar danshöfunda við að semja atriðið segir Eva: „Nei. Ég sem atriðið sjálf."

atlifannar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×