Innlent

Fleiri fá skuldaniðurfærslu

Til umræðu er að rýmka reglur um tekjutengingu varðandi niðurfærslu fasteignalána til að fleiri geti sótt um lækkun lána. Endanleg útfærsla liggur þó ekki fyrir.

Viljayfirlýsing ríkisstjórnarinnar, fjármálafyrirtækja og lífeyrissjóða vegna skuldavanda heimilanna var undirrituð í byrjun síðasta mánaðar. Samkvæmt henni átti að vera búið að ganga frá öllum útfærslum varðandi niðurfærslu fasteignalána 15. desember. Sú vinna hefur hins vegar tafist.

Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra, segir unnið að því að útfæra reglurnar. „Þar hafa allir aðilar verið við borðið. Fyrst og fremst fjármálastofnanir, Íbúðalánsjóður og lífeyrissjóðirnir sem eru að ganga frá þessu án þess ég ætli að lofa því alveg þá ætla ég að vona að það verði gengið frá því í síðasta lagi á morgun."

Í viljayfirlýsingunni er meðal annars gert ráð fyrir að íbúðalán verði færð niður í 110% af verðmæti fasteignar. Úrræðið er háð því skilyrði að greiðslubyrði lána sé meiri en sem 20% af tekjum skuldara.

Guðbjartur segir að til greina komi að rýmka þessar reglur. „Það hafa komið upp þau sjónarmið að rýmka þetta aðeins. Vera með rýmri niðurfellingar en lagt var með í upphafi og ég hef talið það hafi verið eftirsóknarvert að reyna að hafa það þannig," segir Guðbjartur sem kveðst vonast til þess að það verði niðurstaðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×