Innlent

Konur frá sautján til sjötugs leituðu í Kvennaathvarfið vegna ofbeldis

Aldrei í sögu Kvennaathvarfsins hafa þangað leitað fleiri konur vegna ofbeldis en á síðasta ári
Aldrei í sögu Kvennaathvarfsins hafa þangað leitað fleiri konur vegna ofbeldis en á síðasta ári Sviðsett mynd: Teitur

864 komur voru skráðar í Kvennaathvarfið á síðasta ári, sem eru mun fleiri komur en nokkru sinni áður í 28 ára sögu athvarfsins. Einungis þrettán prósent kvennanna höfðu kært ofbeldið sem þær urðu fyrir til lögreglu.

Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Kvennaathvarfinu fyrir árið 2010, en Kvennaathvarfið er athvarf fyrir konur og börn þeirra sem ekki geta búið heima hjá sér vegna ofbeldis. Þar er einnig boðið upp á stuðnings- og ráðgjafarviðtöð og sjálfshjálparhópa fyrir konur sem búa eða hafa búið við ofbeldi.

Alls leituðu 375 konur í athvarfið á árinu, 118 í dvöl en 257 í viðtöl. Með dvalarkonum komu 54 börn og þá voru einnig starfræktir fjórir sjálfshjálparhópar.

Meðalaldur kvenna sem komu í athvarfið á síðasta ári eru 37 ár en þær voru á aldrinum 17 til 70 ára. Börnin voru frá nokkurra vikna gömlum upp í 17 ára.

Að aflokinni dvöl fóru 30% kvennanna heim aftur í óbreyttar aðstæður, 12% fóru heim í breyttar aðstæður og álíka margar í nýtt húsnæði.

Konurnar voru að flýja ofbeldi í nánum samböndum. Í um helmingi tilfella er ofbeldismaðurinn eiginmaður eða sambýlismaður en þriðjungur fyrrverandi makar Ofbeldismennirnir voru á aldrinum 16 til 70 ára, en einungis 13% kvennanna höfðu kært ofbeldið til lögreglu.

Í nýlegri rannsókn sem Rannsóknarstofnun í barna- og fjölskylduvernd gerði fyrir Félags- og tryggingaráðuneytið sögðust tæplega 4% kvenna hafa verið beittar einhvers konar ofbeldi síðastliðna 12 mánuði. Í ljósi þess má reikna með að konurnar sem leita í Kvennaathvarfið sé afar lítill hluti kvenna sem búa við ofbeldi á Íslandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×