Innlent

Foreldrar kaupi umhverfisvottaðar barnavörur

Ýmsar vörur sem ætlaðar eru börnum gætu haft skaðleg áhrif á þroska þeirra. Sérfræðingur Umhverfisstofnunnar hvetur foreldra til að kynna sér málið og velja vörur sem eru umhverfisvottaðar.

Nýlega lagði umhverfisráðuneyti Danmerkur til að banna skyldi notkun tveggja rotvarnarefna í vörur sem ætluð eru börnum eða svokölluð paraben-efni. Rannsóknir á dýrum hafa sýnt að þau geta raskað hormónastarfsemi þeirra, en þau má til dæmis finna í blautþurrkum, sjampói, hárnæringu, kremum og fleiri vörum sem þykja sjálfsagðar við umhirðu lítilla barna.

Bergþóra Hlíðkvist Skúladóttir, sérfræðingur Umhverfisstofnunnar, segir að foreldrar og fólk almennt geti forðast þessi efni til dæmis með því að velja umhverfismerktar vörur, svo sem þær sem hafa fengið umhverfsvottun Svansins.



„Það er eitt af meginmarkmiðum Umhverfisstofnunnar að koma upplýsingum til neytendans þannig að hann geti sínar upplýstu ákvarðanir sjálfur til dæmis um þetta mál," segir Bergþóra.

Hún segir að bak við ákvarðanir um takmarkanir og bönn liggi miklar og góðar vísindarannsóknir.

Vísindanefnd Evrópusambandsins um neytendavörur hefur skoðað paraben undanfarin ár og í nýjasta áliti sínu leggur nefndin til að leyfilegur heildarstyrkur própýl- og butýlparabena í snyrtivörum verði lækkaður um helming og byggir álit sitt á nýjum rannsóknargögnum.

Nánar má lesa um málið á síðu Umhverfisstofnunar, ust.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×