Innlent

Enginn Íslendingur verið drepinn af ísbjörnum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Polar Bears International fullyrða að ísbirnir hafi enga Íslendinga drepið. Mynd/ afp.
Polar Bears International fullyrða að ísbirnir hafi enga Íslendinga drepið. Mynd/ afp.
„Ísbirnir ráðast bara á menn ef þeim er ógnað. Samkvæmt Polar Bears International eru einungis skráð 10 tilvik mannslát í Kanada og Bandaríkjunum og 19 í Rússlandi af völdum ísbjarna. Enginn Íslendingur hefur fallið af völdum ísbjarnar," segir í undirskriftarsöfnun sem Besti flokkurinn hefur hrundið af stað til að vekja athygli á stöðu ísbjarna í heiminum.

Á síðunni er skorað á íslensk stjórnvöld að taka betur á móti ísbjörnum sem villast af leið og lenda á Íslandi. Hingað til hafi ekki verið látið reyna á neinar aðrar leiðir en að drepa ísbirnina.

„Við fórum af stað með þetta í síðustu viku og höfum ekkert auglýst þetta af neinu ráði," segir Heiða Kristín Helgadóttir. Hún segir að von sé á því að söfnunarsíða verði sett í loftið til þess að safna fyrir aðbúnaði í Húsdýragarðinum til þess að taka á móti ísbjörnum á hrakhólum. Þessi síða sé nokkurskonar undanfari og sé einnig ætlað að vera áskorun á stjórnvöld.

„Það er allskonar fólk búið að hafa samband og er tilbúið að koma inn í þetta og finnst þetta merkilegt útfrá náttúruvernd og dýravernd og líka bara þessari norðurhjarapælingu," segir Heiða Kristín. Hún bendir á að ísbirnir séu í útrýmingarhættu og Íslendingar eigi ekki að vera þekktir fyrir það að drepa dýr í útrýmingarhættu.

En þrátt fyrir að Polar Bears International fullyrði að engir Íslendingar hafi drepist af völdum ísbjarna segja íslenskar heimildir annað. Til dæmis segir í lærðri grein Þórs Jakobssonar veðurfræðings um hafís fyrir Suðurlandi að árið 1321 hafi hvítabjörn gengið á land á Heljarvík á Ströndum og banað átta manns.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×