Innlent

Verkfall gæti ógnað loðnuvertíðinni

Boði Logason skrifar
Atkvæðagreiðslan fer fram öðru hvoru megin við helgina.
Atkvæðagreiðslan fer fram öðru hvoru megin við helgina.
„Það er mikil samstaða í þessum hópi og mikill einhugur," segir Sverrir Mar Albertsson, framkvæmdastjóri Afls, starfsgreinafélags á Austurlandi. Á tiltölulega fjölmennum fundi á Egilsstöðum í kvöld var samþykkt að efna til atkvæðagreiðslu um vinnustöðvun sex fiskimjölsverksmiðjum á Austurlandi.

Samninganefnd Drífanda í Vestmannaeyjum, sem er með tvær fiskimjölsverksmiðjur á sínu snæri, tekur svo tillöguna fyrir á morgun.

Hann segir starfsmenn fiskimjölsverksmiðjanna vilja hærra kaup. „Það hafa líka verið deilur í nokkur ár um stöðu þessa kjarasamnings, menn vilja skera úr þeirri deilu í eitt skipti fyrir öll," segir Sverrir og býst við því að atkvæðagreiðslan fari fram öðru hvoru megin við helgina. „Menn er óhræddir við að takast á. Við starfsmenn félagsins höfum fundað stíft með okkar mönnum síðustu viku, bæði á vinnustöðum sem og annars staðar."

Aðspurður um hverjar afleiðingarnar verða ef starfsmenn fiskimjölsverksmiðjanna samþykkja að fara í verkfall segir hann það geta ógnað loðnuvertíðinni. „Íslenskir neytendur munu eflaust ekki taka eftir þessu, þetta er allt flutt út, ég hef ekki trú á að það verði skortur á lýsispillum í landinu. Ég held að lýsis- og mjölframleiðsla hafi skilað 22 milljörðum inn í þjóðarbúið á síðasta ári. Svo er náttúrulega markríll og síld líka inn í þessu, en loðnan er stóra vertíðin."

Hann segir að samtals séu það um 100 starfsmenn sem kjósi um það að fara í verkfall, ef samninganefnd Drífanda samþykkir tillöguna á morgun.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×