Innlent

Leiksskólakennarar: Látum ekki börnin borga kreppuna

Stjórn Félags leikskólakennara hefur sent frá sér ályktun þar sem þungum áhyggjum er lýst af þróun leiksskólastarfs í landinu vegna niðurskurðar. Stjórnin varar eindregið við því að haldið verði áfram á þeirri braut.

„Leikskólakennarar og leikskólastjórnendur hafa af útsjónarsemi og með velferð barna að leiðarljósi velt hverjum steini í rekstrarumhverfi leikskólanna í hagræðingarskyni undanfarin ár. Nú er hins vegar svo komið að víðast hvar hefur verið skorið inn að beini í rekstri leikskólanna og útlit er fyrir að skólarnir geti ekki með nokkru móti sinnt lögboðnu hlutverki sínu komi til frekari niðurskurðar," segir í ályktuninni.

Þá gagnrýnir stjórnin einnig harðlega þær hugmyndir sem fram hafa komið að undanförnu um sameiningar tveggja eða fleiri leikskóla eða samrekstur leik- og grunnskóla „með það eitt að markmiði að spara stjórnunarkostnað skólanna. Leikskólastjórar eru faglegir leiðtogar í leikskólum þar sem víðast hvar sárvantar leikskólakennara til starfa. Þessar hugmyndir eru því aðför að leikskólanum sem fyrsta skólastiginu í menntakerfinu og í hrópandi ósamræmi við nýlega löggjöf um leikskóla og þá framtíðarsýn sem þar er sett fram."

Stjórnin segist vita mæta vel hversu bág fjárhagsstaða margra sveitarfélaga landsins sé um þessar mundir og að víða sé nauðsynlegt að draga úr kostnaði. „Í því árferði sem nú ríkir er hins vegar mikilvægara en nokkru sinni að standa vörð um velferð og öryggi barna. Höfum hugfast að börn eiga aðeins eina æsku og ekki er hægt að bæta þeim upp það sem þau fara á mis við síðar. Látum ekki börnin borga kreppuna."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×