Innlent

Gremja meðal fimmmenninga vegna seinagangs

Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnar Glitnis. Slitastjórn bankans vildi taka málið upp að nýju því tveir hinna stefndu stóðu ekki við forsendur frávísunar málsins í NY. Seinagangur þeirra varð þess valdandi að dómari féllst á endurupptöku málsins.
Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnar Glitnis. Slitastjórn bankans vildi taka málið upp að nýju því tveir hinna stefndu stóðu ekki við forsendur frávísunar málsins í NY. Seinagangur þeirra varð þess valdandi að dómari féllst á endurupptöku málsins.
Dómari í Glitnis-málinu í New York tók upp málið gegn sjömenningunum öllum vegna þess að tveir þeirra skiluðu ekki yfirlýsingum til dómstólsins á réttum tíma. Það voru Pálmi Haraldsson og Hannes Smárason. Hinir fimm eru gramir vegna þessarar þróunar.

Málið er endurupptekið í New York því Hannes Smárason og Pálmi Haraldsson skrifuðu ekki undir yfirlýsingu um að ef á Íslandi félli dómur slitastjórn Glitnis í hag væri dómurinn aðfararhæfur í Bandaríkjunum, þ.e að hægt væri að ganga að eignum þeirra þar í landi til að fullnusta dóminn.

Fyrir vikið var málið tekið upp að nýju. Dómarinn í New York gerði þá kröfu að sjömenningarnir skyldu allir skrifa undir yfirlýsinguna. Slík yfirlýsing hefur grundvallarþýðingu því dómar á Íslandi eru ekki aðfararhæfir í Bandaríkjunum. Til að dómar, sem falla í erlendum ríkjum, séu aðfararhæfir þarf að vera fyrir hendi samningur þess efnis. Slíkur samningur er í gildi milli langflestra Evrópuríkja, en ekki á milli Íslands og Bandaríkjanna.

Fréttastofan hefur heimildir fyrir því að töluverð gremja sé vegna málsins hjá hinum sem skrifuðu undir yfirlýsinguna og skiluðu henni á réttum tíma, en það eru þau Jón Ásgeir Jóhannesson, Ingibjörg Pálmasdóttir, Þorsteinn M. Jónsson, Jón Sigurðsson og Lárus Welding, en eftir því sem fréttastofa kemst næst vilja menn ekki tjá sig um málið opinberlega fyrr en þeir hafa ráðfært sig við lögmenn sína.

Fréttastofa sendi lögmanni Hannesar Smárasonar á Íslandi, fyrirspurn um málið í morgun, en engin svör fengust. Þá hefur ekki náðst í Pálma Haraldsson. thorbjorn@stod2.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×