Innlent

Hundurinn Skjöldur hvarf sporlaust

Þetta er Skjöldur sem fyrrverandi eigandi hefur leitað að, en án árangurs. Síminn hjá Gunnari er 690-4000, hafi einhver séð Skjöld.
Þetta er Skjöldur sem fyrrverandi eigandi hefur leitað að, en án árangurs. Síminn hjá Gunnari er 690-4000, hafi einhver séð Skjöld.

 „Hræddastur er ég um að eitthvað slæmt hafi komið fyrir hundinn.“ Þetta segir Gunnar Ólafsson, sem leitar nú ákaft að hundinum Skildi, sem hann þurfti að láta frá sér.

„Ég er öryrki og þurfti að flytja í íbúð í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu þar sem hundahald er bannað,“ útskýrir Gunnar. Hann sá þann kost vænstan að finna gott heimili fyrir hundinn og auglýsti hann því á Barnalandi og Hvuttar.net.

„Nokkrir svöruðu auglýsingunni og fólkið mitt sá um að velja Skildi gott heimili. Sá sem varð fyrir valinu sagðist eiga husky-hund og væri búinn að ráða hundaþjálfara til að þjálfa þann hund og Skjöld.“

Loforð var gefið um að Gunnar fengi að hitta Skjöld öðru hvoru, enda sér hann sárlega eftir honum.  „Ég ákvað að gefa þessu tíma þannig að hann gæti aðlagast nýju heimili áður en hann sæi mig aftur,“ segir Gunnar. En þegar til átti að taka fannst nýi eigandinn hvergi. Hann hafði gefið upp nafnið Ástþór, tvö símanúmer, bæði í heimasíma og farsíma, og kvaðst búa í Elliðaárdalnum.

„Ég fór að reyna að hringja fyrir um það bil viku, en annað númerið var þá óvirkt og alltaf slökkt á hinum símanum,“ segir Gunnar.

Þá kannast enginn hjá HRFÍ við nafnið sem maðurinn gaf upp og enginn hundaþjálfari sem Gunnar hefur rætt við segist hafa verið ráðinn til að þjálfa husky-hunda. Gunnar er hræddur um afdrif Skjaldar og vill jafnframt vara fólk við að láta dýr í hendur ókunnugra, nema að kynna sér hagi viðkomandi vel áður.- jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×