Sport

Arnar vill sá tvö þúsund manns í Víkinni annað kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arnar Gunnlaugsson hefur verið einkar sigursæll sem þjálfari Víkings.
Arnar Gunnlaugsson hefur verið einkar sigursæll sem þjálfari Víkings. Vísir/Hulda Margrét

Víkingur tekur á móti Stjörnunni í undanúrslitum Mjólkurbikars karla í fótbolta annað kvöld. Víkingar geta þar tryggt sér sæti í fimmta bikarúrslitaleiknum í röð en KA-menn komust í bikaúrslitaleikinn í kvöld.

Arnar Gunnlaugsson hefur gert Víkingsliðið fjórum sinnum að bikarmeisturum og hann vonast eftir góðri mætingu á undanúrslitaleikinn við Stjörnuna. Á miðlum Víkings kemur fram að þjálfarinn sigursæli vilji fá tvö þúsund manns í Víkina.

„Þetta er bikar sem er okkur mjög kær og okkar langar ekkert að láta hann af hendi,“ sagði Arnar. Víkingar unnu hann 2019, 2021, 2022 og 2023. Árið 2020 var bikarkeppnin ekki kláruð vegna kórónuveirufaraldursins.

„Það er töfrandi stund að vera í Víkinni í undanúrslitum á heimavelli. Við þekkjum það vel,“ sagði Arnar.

Á leiðinni að þessum fjórum bikarmeistaratitlum í röð þá hefur Víkingsliðið verið tvisvar á heimavelli í undanúrslitaleik. Liðið vann 3-1 sigur á Breiðabliki árið 2019 og 4-1 sigur á KR í fyrra. 2021 og 2022 lék liðið á útivelli í undanúrslitum, fyrra árið á móti Vestra á KR-velli en það síðasta á móti Blikum í Kópavogi.

1818 manns mættu á KR-leikinn í fyrra og 1848 manns á Blikaleikin fyrir fimm árum.

„Fólk fer að fjölmenna í Víkina og það verður þvílíkur stuðningur og þvílík stemning. Tvö þúsund manns í Víkinni maður,“ sagði Arnar í upphitun fyrir leikinn á miðlum Víkinga eins og sjá má hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×