Menning

„Einfaldir hlutir“ í Listagili

Brynhildur Kristinsdóttir opnar sýninguna „Einfaldir hlutir, höfuð, stóll og samskipti“ á Karólínu Restaurant í dag.
Brynhildur Kristinsdóttir opnar sýninguna „Einfaldir hlutir, höfuð, stóll og samskipti“ á Karólínu Restaurant í dag. fréttablaðið/brynhildur kristinsdóttir

Brynhildur Kristinsdóttir opnar í dag sýninguna „Einfaldir hlutir, höfuð, stóll og samskipti“ á Karólínu Restaurant í Listagilinu á Akureyri. „Í þessari sýningu mætast gömul og ný verk. Með litum, línum og formum langar mig að segja frá en einnig að spyrja, leita og rannsaka. Þetta ferli frá því að maður fær ákveðna hugmynd að verki þangað til að hugmyndin fær efnislegt form er í sjálfu sér áhugavert,“ segir Brynhildur um sýninguna.



Brynhildur nam myndlist í Myndlistaskólanum á Akureyri og í Myndlista- og handíðaskóla Íslands. Þaðan lá leið hennar til Ítalíu, þar sem hún vann með myndhöggvurum, og síðar í smíðanám í Iðnskólanum í Reykjavík. Auk þess að starfa við eigin myndsköpun hefur hún kennt myndlist, átt í samstarfi við ýmsa listamenn og gert leikmynd fyrir dans. Brynhildur hefur haldið nokkrar einkasýningar og tekið þátt í samsýningum. Hún starfar nú hjá Fjölmennt fullorðinsfræðslu fatlaðra.



Sýningin opnar klukkan 14 í dag og stendur yfir til 2. febrúar 2008.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×