Íslenski boltinn

KR-ingar leigja Stefán Loga til Lilleström

Ómar Þorgeirsson skrifar
Stefán Logi Magnússon.
Stefán Logi Magnússon. Mynd/Arnþór

KR og norska félagið Lilleström hafa náð samkomulagi um leikmannaskipti á markvörðunum Stefáni Loga Magnússyni og Andre Hansen en aðeins er þó um leigusamning að ræða út yfirstandi tímabil.

Þjálfarinn Henning Berg hjá Lilleström hefur lengi haft augastað á Stefáni Loga en KR-ingar vildu vitanlega ekki missa leikmanninn á miðju sumri án þess að fá neitt í staðinn og því kemur U-21 árs landsliðsmarkvörður Norðmanna til KR auk þess sem Norðmennirnir greiða í milli og Kristinn Kjærnested formaður knattspyrnudeildar KR er ánægður með samninginn.

„Við erum búnir að vita lengi af áhuga þeirra á Stefáni Loga en það má segja að þeir hafi byrjað að þreifa á þessu um leið og þeir seldu Björn Helge Riise til Fulham. Þá fá þeir smá peninga en við vildum ekki fara að lána Stefán Loga eða neitt slíkt og þá gerðu þeir okkur hörku tilboð og við tókum því.

Þetta hentar bara öllum aðilum mjög vel og við í KR og Stefán Logi erum mjög ánægðir með þessa niðurstöðu. Við sjáum svo bara til hvað gerist í haust," segir Kristinn.

Stefán Logi leikur með KR gegn Val í bikarnum og svo seinni leikinn gegn Basel í Evrópudeild UEFA og eftir það er gert ráð fyrir því að Hansen taki við og berjist um byrjunarliðsstöðuna við Atla Jónasson fyrir leikinn gegn FH í Pepsi-deildinni.

„Við erum náttúrulega ekki að renna blint út í sjóinn með Hansen því við höfum fín sambönd í Noregi bæði í gegnum Loga Ólafsson og Rúnar Kristinsson. Hansen var nýlega valinn í U-21 árs landsliðshóp Noregs og hann er stór og sterkur og er eiginlega bara svona copy-paste útgáfa af Stefáni Loga," segir Kristinn á léttum nótum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×