Sport

Kristín Birna vann fimm gull fyrir ÍR sem vann bikarinn í 19. sinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
ÍR-ingar unnu bikarinn annað árið í röð.
ÍR-ingar unnu bikarinn annað árið í röð. Mynd/ÓskarÓ
ÍR-ingar tryggðu sér í gær sigur í Bikarkeppni FRÍ annað árið í röð og í nítjánda sinn alls þegar þeir fengu sextán stigum meira en aðalkeppninautarnir í FH en keppnin fór fram á Sauðárkróksvelli.

ÍR fékk alls 173 stig í bikarkeppninni í ár, FH varð í 2. sæti með 157 stig og Ármann-Fjölnir varð í 3. sæti með 135 stig.

FH vann karlakeppnina í 21. skpti en FH-ingar fengu 23 stigum meira en ÍR sem varð í öðru sæti og 33 stigum meira en sameiginlegt lið Ármanns og Fjölnir sem fékk bronsið.

ÍR vann kvennakeppnina í fjórtánda sinn en ÍR fékk 28 stigum meira en Ármann/Fjölnir sem varð í öðru sæti en í þriðja sætinu voru síðan FH-konur 39 stigum á eftir bikarmeisturunum úr ÍR.

ÍR-ingurinn Kristín Birna Ólafsdóttir skilaði heldur betur sínu í bikarnum í ár því hún vann fimm greinar og varð síðan í öðru sæti í langstökki þar sem hún var aðeins sex sentímetrum frá sigri.

Þorsteinn Ingvarsson hjá Norðurlandi vann þrjár greinar og lenti í öðru sæti í tveimur til viðbótar og Helga Margrét Þorsteinsdóttir í sameiginlegu liði Ármanns og Fjölnis vann tvær greinar, lenti í öðru sæti í tveimur og í þriðja sæti í einni.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×