Fótbolti

„Gefur okkur bara meiri eld í það að taka stóra bikarinn“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Karitas Tómasdóttir í eltingaleik í leik kvöldsins.
Karitas Tómasdóttir í eltingaleik í leik kvöldsins. Vísir/Anton Brink

„Þetta er bara helvíti súrt,“ sagði stuttorð Karitas Tómasdóttir eftir að hún og liðsfélagar hennar í Breiðabliki þurftu að horfa á eftir bikarmeistaratitlinum til Vals í kvöld.

Blikar máttu þola 2-1 tap í úrslitum Mjólkurbikarsins í kvöld, í leik þar sem bæði lið fengu sín færi til að brjóta ísinn. Að lokum voru það Valskonur sem voru fyrri til og róðurinn eftir það þungur fyrir Blikaliðið og Karitas segir það hafa verið sárt.

„Ég er sammála. Maður á náttúrulega eftir að horfa aftur á leikinn, en mér fannst við vera betri allavega í fyrri hálfleik og á stórum köflum í seinni. Svo bara leka inn mörk hjá okkur og auðvitað var þetta orðið erfitt eftir að þær skoruðu annað markið. En við hættum aldrei og ætluðum að jafna þetta og ná þessu í framlengingu.“

Karitas varð undir í baráttunni við Katie Cousins í aðdraganda annars marks Vals, en bætti að einhverju leyti upp fyrir mistökin með því að skora mark Blika undir lok leiks. Hún segir það þó vera langt frá því að vera einhver sárabót.

„Við vildum auðvitað bara fara fram aftur og skora annað mark. En þetta gefur okkur bara meiri eld í það að taka stóra bikarinn,“ sagði Karitas að lokum




Fleiri fréttir

Sjá meira


×