Handbolti

Gull, silfur og brúð­kaup

Smári Jökull Jónsson skrifar
Stine Bredal Oftedal og Rune Dahmke kepptu bæði á Ólympíuleikunum í París.
Stine Bredal Oftedal og Rune Dahmke kepptu bæði á Ólympíuleikunum í París. Instagramsíða Rune Dahmke

Handboltastjörnurnar Stine Bredal Oftedal og Rune Dahmke unnu bæði til verðlauna í handboltakeppni Ólympíuleikanna í París á dögunum. Þau létu síðan pússa sig saman strax að leikunum loknum.

Stine Bredal Oftedal hefur verið lykilmaður í norska landsliðinu undir stjórn Þóris Hergeirssonar síðustu árin og er talin ein af bestu handknattleikskonum í heimi. Hún hefur síðustu sjö árin verið í sambandi með Þjóðverjanum Rune Dahmke sem leikur með Kiel og undir stjórn Alfreðs Gíslasonar í þýska landsliðinu.

Bæði Oftedal og Dahmke unnu til verðlauna á Ólympíuleikunum í París en Oftedal vann gull með norska liðinu og Dahmke silfur með því þýska.

Þau létu þó ekki þar við sitja. Í dag tilkynntu þau á Instagram að þau hefðu gift sig og deildu mynd þar sem þau sýndu giftingarhringana.

Eins og áður segir hafa þau Oftedal og Dahmke verið parí sjö ár en verið í fjarbúð þar sem þau hafa spilað handbolta í sitthvoru landinu. Oftedal hefur leikið með stórliði Györi í Ungverjalandi frá árinu 2017 og Dahmke með Kiel í Þýskalandi.

Þau ættu hins vegar að geta eytt meiri tíma saman á næstunni því Oftedal tilkynnti í vetur að hún ætlaði sér að leggja skóna á hilluna eftir Ólympíuleikana í París. Hún lauk ferlinum á glæsilegan hátt því fyrir utan gullverðlaunin með norska liðinu vann hún sigur í Meistaradeildinni með liði Györi.

Oftedal og Dahmke festu nýlega kaup á húsi í Kiel og hlakka til að geta loks búið saman.

„Allt sem við viljum er að vera saman og mér er ótrúlega létt og er glöð yfir því að við munum loksins geta átt venjulegt líf saman,“ sagði Oftedal í viðtali við norska fjölmiðilinn VG fyrir skömmu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×