Innlent

Foreldrar harma ákvörðun um sameiningu skóla

Mynd/Vilhelm
Stjórn Foreldrafélags Hvassaleitisskóla harmar þá ákvörðun menntaráðs Reykjavíkurborgar að falla ekki frá sameiningu Hvassaleitisskóla og Álftamýrarskóla. Í tilkynningu frá stjórninni er ítrekað sú krafa að tillaga um sameiningu skólanna verði dregin til baka og sjálfstæði Hvassaleitisskóla tryggt.

Félagið segist reiðubúið til samstarfs við borgaryfirvöld og skólastjórnendur til að  finna leiðir til fjárhagslegrar hagræðingar. Þá segir að það sé með ólíkindum að fallið sé frá því að sameina tvo leikskóla, Seljaborg og Seljakot, vegna ólíkrar hugmyndafræði og stefna en samtímis lagt til að sameina tvo grunnskóla með gjörólíkar kennslustefnur.

„Í Hvassaleitisskóla er greinabundin kennsla en nemendur Álftamýrarskóla búa við samkennslu árganga,“ segir í tilkynningunni.  „Í umfjöllun um Hvassaleitisskóla í umsögn menntaráðs um skýrslu starfshóps um greiningu tækifæra til endurskipulagningar í skóla-og frístundastarfi barna og unglinga í Reykjavík kemur fram að í umsögnum frá skólanum hafi komið fram sterk krafa foreldra um að vera þátttakendur í breytingarferlinu og mótun fyrirkomulags skólastarfs í skólanum og með því að fresta sameiningu til 1. janúar 2012 gefist tími til að undirbúa breytingarnar með þátttöku starfsfólks og foreldra. Stjórn foreldrafélagsins telur að umsögn sín hafi verið mistúlkuð. Stjórn foreldrafélags Hvassaleitisskóla óskaði eftir því í umsögn sinni að borgarstjórn færi hægt í sakirnar við að endurskipuleggja skólastarf í Hvassaleitisskóla og notaði næsta ár til að skoða þá möguleika sem í boði eru til að hagræða í fullri sátt við foreldra og hefur stjórn foreldrafélagsins ítrekað þá ósk á fundi með Oddnýju Sturludóttur og Ragnari Þorsteinssyni. Það er eindreginn vilji stjórnar foreldrafélagsins að eiga samtarf við borgaryfirvöld um framtíðarskipulag Hvassaleitisskóla en ekki gjörðan hlut.“

Þá er bent á að í breytingatillögum menntaráðs sem kynntar hafa verið sé fallið frá sameiningum skóla í Breiðholti og Vesturbæ og lagt til að skipaðir verði starfshópar sem skóla- og foreldrasamfélagið verði virkir þátttakendur í.

„Stjórn foreldrafélags Hvassaleitisskóla fagnar áhuga borgaryfirvalda á að eiga náið samstarf við foreldra í Breiðholti og Vesturbæ um þróun skólastarfs en harmar að borgaryfirvöld hunsi ítrekaða beiðni foreldra barna í Hvassaleitisskóla um samráð. Til að jafnræðis sé gætt milli borgarhluta krefst stjórn foreldrafélags Hvassaleitisskóla þess að tillaga um sameiningu Hvassaleitisskóla og Álftamýrarskóla verði dregin til baka og foreldarar í þessum skólum fái að eiga svipað samstarf og samráð við borgaryfirvöld um þróun skólastarfs í hverfinu og í Breiðholti og Vesturbæ,“ segir að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×