Innlent

Sorphirðureglan brugguð á laun

Ekkert samráð var haft við íbúa í borginni vegna 15 metra reglunnar, svonefndu
Ekkert samráð var haft við íbúa í borginni vegna 15 metra reglunnar, svonefndu
Húseigendafélagið skorar á borgaryfirvöld að hverfa frá hinni svokölluðu „15 metra reglu" vegna sorphirðu í Reykjavík. „Er skorað á borgaryfirvöld að taka sönsum og auka hvorki vanda sinn né borgarbúa frekar en orðið er með fyrirhyggjuskorti, hörku og óbilgirni í þessu viðkvæma máli," segir í ályktun aðalfundar félagsins, sem haldinn var 14. apríl.

Til vara er skorað á borgaryfirvöld að slá gildistöku reglunnar á frest í minnst ár, þannig að hægt sé að kanna hvort lagastoð sé fyrir reglunni „... og ef svo reynist að tóm gefist til að undirbúa breytinguna sómasamlega með lengri aðdraganda, eðlilegu samráði og betri og markvissari undirbúningi, sem er forsenda sáttar og góðra siða og reglna. Verði þessi ósköp og endaleysa keyrð í gegn með óhjákvæmilegu klúðri og vandræðaástandi og verði 15 metra reglan ekki talin hafa stoð í lögum þá er illu verr af stað farið en heima setið," segir í ályktuninni.

Gjaldtaka vegna sorphirðu ef sorptunnur eru staðsettar fjær götu en 15 metrum, hefst þann 1. maí. Gildistöku reglunnar hafði áður verið frestað vegna mikillar óánægju.

Í greinargerð sem fylgir með ályktunin Húseigendafélagsins segir meðal annars:

„Þessi regla var brugguð á laun án nokkurs samráðs við íbúa Reykjavíkur, húseigendur og félög og samtök þeirra.  Ljóst er að staðsetning sorpíláta er víða fastbundin og njörvuð af skipulagi og byggingarskilmálum og nauðsynlegt er í mörgum tilvikum að fá formlegt leyfi byggingaryfirvalda fyrir breytingum. Það tekur tíma, fyrirhöfn, snúninga og kostar fé. Sums staðar eru breytingar óframkvæmanlegar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×