Innlent

Lilju virðist hafa snúist hugur

Jónas Margeir Ingólfsson skrifar
Í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gærkvöld útilokaði Lilja Mósesdóttir ekki að stofna nýjan stjórnmálaflokk. Í upphafi þingfundar í dag sagði hún þetta mikla spunafréttamennsku. Hins vegar vakti athygli að í máli hennar kom ekki fram að hún væri hætt að íhuga stofnun nýs flokks.

Frétt stöðvar tvö í gærkvöld vakti hörð viðbrögð flokkfélaga Lilju Mósesdóttur. Þar kvaðst Lilja vera að skoða alla möguleika og gekkst við því að íhuga að stofna nýjan stjórnmálaflokk en ákvörðun var tekin í gær um að stofna nýjan þingflokk fyrst um sinn.

Í upphafi þingfundar í dag sagði Lilja hins vegar mikla spunafréttamennsku einkenna þessa frétt. Hún íhugi ekki að stofna nýjan stjórnmálaflokk.

„Í gærkvöldi bjó Stöð 2 til þá spunafrétt að ég íhugi að stofna nýjan flokk til höfuðs Vinstri grænum."

Þetta sagði hins vegar Lilja í kvöldfréttum okkar í gær, aðspurð um framtíð sína innan Vinstri grænna: „Við höfum smá tíma til að ákveða hvort við bjóðum okkur fram."

Aðspurð hvort þetta þýði að hún ætli að stofna nýjan stjórnmálaflokk sagði Lilja síðan: „Hvað mig varðar er ég að skoða ýmsa möguleika, já."


Tengdar fréttir

Lilja íhugar að stofna stjórnmálaflokk

Lilja Mósesdóttir íhugar nú að stofna nýjan stjórnmálaflokk. Hún segist kanna alla möguleika er varða framtíð sína í stjórnmálum. Þá mun hún stofna nýjan þingflokk ásamt Atla Gíslasyni og Ásmundi Einari Daðasyni. Það verður þó ekki gert formlega fyrr en Alþingi kemur saman að loknu páskaleyfi. Hún segir starf þingflokksformanns ekki vera eftirsótt meðal þremenningna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×