Innlent

Flestir flytja til Noregs

320 Íslendingar flutti til Noregs á fyrsta fjórðungi ársins
320 Íslendingar flutti til Noregs á fyrsta fjórðungi ársins Mynd úr safni
319.100 manns bjuggu á Íslandi í lok 1. ársfjórðungs 2011, þar af 160.300 karlar og 158.800 konur. Landsmönnum fjölgaði um 600 á ársfjórðungnum. Erlendir ríkisborgarar voru 21.400 og á höfuðborgarsvæðinu bjuggu 203.000 manns.

Á 1. ársfjórðungi 2011 fæddust 1.100 börn, en 540 einstaklingar létust. Á sama tíma fluttu 15 einstaklingar frá landinu umfram aðflutta. Brottfluttir einstaklingar með íslenskt ríkisfang voru 270 umfram aðflutta, en aðfluttir erlendir ríkisborgarar voru 260 fleiri en þeir sem fluttu frá landinu. Fleiri karlar en konur fluttu frá landinu.

Noregur var helsti áfangastaður brottfluttra íslenskra ríkisborgara en þangað fluttu 320 manns á 1. ársfjórðungi. Til Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar fluttu 620 íslenskir ríkisborgarar af 840 alls. Af þeim 380 erlendu ríkisborgurum sem fluttu frá landinu fóru flestir til Póllands, 160 manns.

Flestir aðfluttir íslenskir ríkisborgarar komu frá Danmörku (240), Noregi (130) og Svíþjóð (60), samtals 420 manns af 570. Pólland var upprunaland flestra erlendra ríkisborgara en þaðan fluttu 170 af alls 640 erlendum innflytjendum. Litháen kom næst en þaðan fluttu 45 erlendir ríkisborgarar til landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×