Innlent

Safna undirskriftum gegn Ódrjúgshálsi

Undirskriftasöfnun er hafin á sunnanverðum Vestfjörðum þar sem skorað er á alþingismenn að samþykkja lagafrumvarp um að nýr þjóðvegur verði lagður um Teigsskóg í stað vegarins um Ódrjúgsháls. Þingmenn eru hvattir til að víkja til hliðar óverulegum einkahagsmunum en tryggja í staðinn hagsmuni heils landshluta.

Undirskriftalistarnir liggja frammi í verslunum á Patreksfirði, Tálknafirði, Bíldudal og á Reykhólum en samkvæmt fréttavef Patreksfirðinga stendur áhugafólk í Vesturbyggð fyrir söfnun undirskriftanna. Þar eru þingmenn hvattir til að samþykkja lagafrumvarp þingmannanna Einars K. Guðfinnssonar, Ásbjörns Óttarssonar og Gunnars Braga Sveinssonar um að leggja skuli veg um Teigsskóg í Þorskafirði og þvert yfir Djúpafjörð og Gufufjörð. Í frumvarpinu er þessu lýst sem brýnasta verkefni í vegamálum á Íslandi.

Í texta undirskriftarlistanna segir að það sé mat íbúa að af þeirri framkvæmd verði ekki nema um hana verði sett sérstök löggjöf sem ýti til hliðar óverulegum einkahagsmunum sem hafi stöðvað framkvæmdir til þessa, en tryggi hins vegar hagsmuni heils landshluta. Byggð á Vestfjörðum þoli ekki frekari seinkun á samgöngubótum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×