Innlent

Annálaður Patrol aðdáandi sakaður um að eiga Land Cruiser

Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ segist íhuga alvarlega að stefna DV fyrir persónuníð og meiðyrði en í blaði dagsins er sagt frá hremmingum sem Gylfi lenti í á dögunum ásamt syni sínum þegar bíll þeirra hafnaði á kafi í stórum polli á Kjalarvegi fyrir nokkru.

DV fer hinsvegar rangt með tegund bifreiðar Gyllfa og segir að hann hafi verið á glæsilegri Land Cruiser bifreið. Hið rétta er að um er að ræða ellefu ára gamlan Nissan Patrol jeppa sem Gylfi keypti af björgunarsveitinni Dagrenningu fyrir nokkrum árum. Rangfærslan virðist fara fyrir brjóstið á forsetanum sem segist enda lengi hafa verið annálaður Nissan Patrol aðdáandi.

„Ég get alls ekki unað því að almenningi sé með svo óábyrgum hætti talið trú á að ég aki um á Toyota Land Cruiser jeppa þegar hið sanna er að ég hef lengi verið annálaður Nissan Patrol aðdáandi. Líklegt er að ég muni, auk þess að þessi frétt verði dæmd dauð og ómerk, krefjast miskabóta af hálfu DV með þeim hætti, að blaðinu verði gert að kaupa bifreiðina á eigin verðmætamati," segir Gylfi í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér í dag.

Ritstjórn DV brást snöggt við og leiðrétti málið á vefsíðu sinni í dag auk þess sem Gylfi er beðinn afsökunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×