Innlent

Sleginn í rot í hópslagsmálum í mið­bænum

Jón Þór Stefánsson skrifar
Hópslagsmálin áttu sér stað í miðbæ Reykjavíkur.
Hópslagsmálin áttu sér stað í miðbæ Reykjavíkur. Vísir/Vilhelm

Lögreglan var kölluð til vegna hópslagsmála í miðbæ Reykjavíkur í nótt. Eftir slagsmálin var einn einstaklingur líklega nefbrotinn og þá hafði annar verið sleginn í rot. Þrír voru handteknir og vistaðir í fangaklefa vegna málsins.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Þar segir jafnframt frá því að við skemmtistaðaeftirlit í miðbæ Reykjavíkur hafi lögregluþjónar tekið eftir einstaklingi sem virtist vera of ungur til að vera inni á skemmtistað. Ungmennið hafi framvísað fölsuðum skilríkjum og reyndist vera undir lögaldri. Fram kemur að málið hafi verið afgreitt með aðkomu barnaverndaryfirvalda og foreldra viðkomandi einstaklings.

Óskað var eftir aðstoð lögreglu í umdæmi lögreglustöðvar tvö, sem sér um Hafnarfjörð og Garðabæ vegna einstaklings sem gekk um og sparkaði í bifreiðar. Fram kemur að þegar lögreglu bar að garði bar hún kennsl á einstaklinginn sem hafði ítrekað verið tilkynntur fyrr um kvöldið vegna ölvunarláta. Í dagbókinni segir að ekki hafi verið með neinu móti hægt að tjónka við einstaklingnum sem var þess vegna vistaður í fangaklefa.

Í sama umdæmi var ökumaður kærður fyrir að aka á 138 kílómetra hraða þar sem hámarkshraði er áttatíu. Lögreglan segir hann eiga von á sviptingu ökuréttinda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×