Innlent

Engin lögregla lengur í Dalasýslu

Mynd úr safni
Síðasta vaktin hjá lögreglunni í Búðardal er í dag því eftir vinnudaginn verður lögreglustöðinni í Dalasýslu lokað. Andmæli íbúa megnuðu ekki að snúa við ákvörðun stjórnvalda en Dalamenn afhentu í lok janúarmánaðar Ögmundi Jónassyni innanríkisráðherra undirskriftalista með 1.368 nöfnum með ákalli til ráðherrans um að hlífa þessu eina stöðugildi lögreglumanns í héraðinu.

Ögmundur hafði tekið vel á móti forsvarsmönnum undirskriftasöfnunarinnar, sagt að málið yrði skoðað og farið yfir það. Þá hafði sveitarstjórn Dalabyggðar komið jákvæð af fundi ráðherrans nokkru síðar, að því er fram kemur á vefsíðu Búðardals. En allt kom fyrir ekki.



Dalamenn sögðu þessa ákvörðun ekki aðeins vanhugsaða heldur skerti hún almenn mannréttindi og öryggistilfinningu íbúa Dalabyggðar og nærsveita. Þeir bentu á að lögregluumdæmið væri gríðarlega víðfeðmt og ekki væri boðlegt að hafa útkallsstöð fyrir Dalabyggð staðsetta í Borgarnesi í 80 kílómetra fjarlægð, auk þess sem yfir fjallveginn Brattabrekku væri að fara. Þá hefði umferð aukist gríðarlega í gengum Dali, meðal annars með tilkomu nýs vegar um Arnkötludal, en Ísafjarðarumferðin hefur nú að mestu færst á þann veg.



 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×