Innlent

Málið byggt á misskilningi - Bubbi getur sofið rólega

Bubbi bað Heiðar Már afsökunar á skrifum sínum en Heiðar Már ætlaði aldrei í mál við hann, heldur lagði hann pistil tónlistarmannsins til að sýna hvaða áhrif umfjöllun DV hefði á almenna umræðu um málið.
Bubbi bað Heiðar Már afsökunar á skrifum sínum en Heiðar Már ætlaði aldrei í mál við hann, heldur lagði hann pistil tónlistarmannsins til að sýna hvaða áhrif umfjöllun DV hefði á almenna umræðu um málið. Samsett mynd Vísis
„Það stóð aldrei til að fara í meiðyrðamál við hann," segir Birgir Tjörvi Pétursson, lögmaður Heiðars Más Guðjónssonar fjárfestis, um afsökunarbeiðni Bubba Morthens sem hann birti í pistli á pressunni í morgun.

 

Bubbi bað þar Heiðar Már afsökunar á pistli sem hann skrifaði fyrir nokkru síðan og fjallaði um meinta stöðutöku Heiðars Más gegn krónunni og vitnaði þar í blaðið DV.

 

Birgir Tjörvi segir að málið byggi allt á misskilningi eftir að fréttavefur DV birti í gær frétt. Í frétt DV segir: „Undirliggjandi gæti verið hótun um að Heiðar hyggist fara í meiðyrðamál gegn tónlistarmanninum vegna ummæla sem hann lætur falla í pistlinum með því að hann sé lagður fyrir héraðsdóm."

 

„Við lögðum fram þennan pistil sem birtist eftir hann til að sýna fram á það með hvaða hætti umfjöllun DV hefði á almenna umræðu um þetta mál. Ég veit ekki hver átti hugmyndina að því að það yrði farið í meiðyrðamál við þennan ágæta mann, það stóð aldrei til. Þannig hann getur sofið rólega" segir Birgir Tjörvi.

 

Bubbi sagðist í afsökunarpistlinum vera lélegur áhugafjárfestir sem á lítið af aur. „Af auðmýkt og einlægni bið ég þig afsökunar ef ég hef sært þitt viðkvæma vitsmunalíf og raskað svefnró þinni. Ég skrifa þennan pistil á fjórum fótum eingöngu klæddur í gamlar Boss nærbuxur til að undirstrika auðmýkt mína," skrifaði Bubbi.


Tengdar fréttir

Bubbi á nærbuxunum biður Heiðar Má afsökunar

Tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens hefur beðið fjárfestinn Heiðar Má Guðjónsson opinberlega afsökunar á pistli sem hann skrifaði á pressuna fyrir nokkru síðan. Pistillinn bar yfirskriftina "Krónuníðingar" en þar fjallaði Bubbi um meinta stöðutöku Heiðars gegn krónunni og vitnaði þar í blaðið DV.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×