Innlent

Ólafur Ragnar fær einkafund með páfanum

Jónas Margeir Ingólfsson skrifar
Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, fer til Rómar í næstu viku til fundar við Benedikt páfa sextánda til að færa honum að gjöf styttu af Guðríði Þorbjarnardóttur. Forsetinn fær þá einkaáheyrn páfa.

Eftir að hafa vísað Icesave samningunum í þjóðaratkvæðagreiðslu mun forseti Íslands halda í suðurgöngu í Páfagarð en hann mun eiga fund með Benedikt sextánda í næstu viku.

Aðalefni fundarins er að forseti Íslands hyggst afhenda páfanum styttu af Guðríði Þorbjarnardóttur. Guðríður var uppi í kringum árið 1000 og var á sínum tíma talin víðförlasta kona heims. Hún fæddist á Íslandi en sigldi til Grænlands og þaðan til Vínlands. Þá gekk hún víða um Evrópu. Guðríður settist loks að í Glaumbæ í Skagafirði. Þegar hún var orðin ekkja fór hún til Rómar og gaf páfanum skýrslu um ferðir sínar.

Leifur heppni er sagður hafa bjargað hópi manna, þar á meðal Guðríði og og Þóri austmanni, fyrsta manni hennar, úr skeri og flutt með sér til Brattahlíðar, þar sem Þórir veiktist og dó skömmu síðar. Guðríður giftist þá Þorsteini Eiríkssyni sem var bróðir Leifs heppna. Hann veiktist einnig og dó en Guðríður giftist loks Þorfinni karlsefni Þórðarsyni frá Glaumbæ í Skagafirði.

Styttan sem forsetinn mun afhenda páfanum er eftir Ásmund Sveinsson og er nú þegar til í þremur eintökum. Eitt þeirra er í Glaumbæ, annað við Laugarbrekku á Snæfellsnesi en sú þriðja í Ottawa í Kanada.

Páfinn mun veita Ólafi Ragnari einkaáheyrn en slík er afar sjaldgæft. Páfinn tekur eingöngu á móti biskupum, kardinálum, þjóðhöfðingjum og fólki með mjög brýn eða sérstök erindi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×