Innlent

Tannlæknar segja upp gjaldfrjálsri forvarnarskoðun barna

Karen Kjartansdóttir skrifar
Langflestir tannlæknar landsins hafa sagt upp samningi við sjúkratryggingar um gjaldfrjálsa forvarnaskoðun barna en þeirri skoðun var komið á laggirnar til að reyna að tryggja að sem flest börn kæmust til tannlæknis.

Það vakti mikil viðbrögð í samfélaginu þegar svokölluð Munnís rannsókn leiddi í ljós árið 2007 að íslensk börn voru með mun fleiri skemmdar tennur en önnur börn á Norðurlöndum. Nokkrum árum áður höfðu íslensk börn hins vegar verið við mjög góða tannheilsu.

Í rannsókninni var bent á að þá höfðu skólatannlækningar voru við lýði og að greiðslur almannatrygginga greiddu nær alfarið kostnað við grunnþjónustu barna og unglinga.

Þáverandi heilbrigðisráðherra reyndi að bregðast við stöðunni með því að koma af stað gjaldfrjálsum eftirlitsskoðunum fyrir þrjá árganga barna, það er þriggja, sex og tólf ára. Samningurinn tók þó ekki til tannviðgerða. Síðan þá hefur honum verið breytt talsvert og í engu samráði við tannlækna að sögn formanns Tannlækafélagsins.

Því hafi langflestir tannlæknar ákveðið að segja sig frá samningum.

„Samningurinn rann út um áramótin og ekki setist niður á ný við samningaborðið. Það kom tilskipun að ofan um að halda áfram en tannlæknar eru ósáttir við skilyrði í samningum sem hafa aldrei verið rædd," segir Sigurður Benediktsson, formaður Tannlæknafélags Íslands.

Hann segir að til dæmis séu tannlæknar krafnir um að koma sér upp töluverðum tölvubúnaði og forritum til að geta sent inn rafræna reiknaninga vegna samningsins.

Samningurinn sé hins vegar það lítill hluti af starfi tannlækna að slíkar kröfur svari ekki kostnaði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×