Innlent

Eignatjón hjá Íslendingum í Christchurch - brúðkaupsgestirnir óhultir

Kaþólska kirkjan í Christchurch er illa farin eftir jarðskjálftann
Kaþólska kirkjan í Christchurch er illa farin eftir jarðskjálftann Mynd/AP
Fjórtán manna hópur Íslendinga sem fór til Christchurch á Nýja Sjálandi til að vera viðstaddur brúðkaup er heill á húfi.

Samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu er ekki vitað til annars en að þeir Íslendingar sem eru á svæðinu séu óhultir eftir jarðskjálftann sem þar reið yfir.

Tugir Íslendinga búa í Christchurch, mikið af fjölskyldufólki.

Urður Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins, segir starfsmenn ráðuneytisins hafa unnið að því í allan morgunn að fá fregnir af Íslendingum í borgunni. Ljóst er að hluti þeirra hefur orðið fyrir nokkru eignatjóni.

Fjöldi húsa er hruninn og fjöldi fólks lét lífið þegar hús hrundi á tvo strætisvagna. Alls er vitað um á sjöunda tug látinna í borginni.

Síðasta haust urðu miklar skemmdir í Christchruch er jarðskjálfti upp á 7 stig á Richter reið yfir hana en ekkert manntjón varð af völdum þess skjálfta.


Tengdar fréttir

Ekkert heyrst frá Íslendingum í Christchurch - hópur á leið í brúðkaup

Utanríkisráðuneytið hefur enn ekki náð í neina Íslendinga í Christchurch á Nýja Sjálandi eftir að öflugur jarðskjálfti reið yfir borgina. Jarðskjálftinn var um hádegisbil að staðartíma en um miðnætti að íslenskum tíma. Vitað er að hópur Íslendinga var á leið til borgarinnar til að vera viðstaddur brúðkaup. Auk þess er talsverður fjöldi Íslendinga sem er þar búsettur. Ekki fást þó nákvæmar upplýsingar um það frá ráðuneytinu.

Íslendingur í Christchurch: Allt úr skorðum

Líney Weishappel býr í Christchurch, þar sem öflugur jarðskjálfti reið yfir í nótt, ásamt manni sínum og tveimur börnum. Hún var við vinnu í miðborginni þegar skjálftinn reið yfir. „Hann hefur varað í svona 20 sekúndur og þetta var mjög mikill hristingur." Líney segist hafa búið á Íslandi sumarið 2000 þegar tveir öflugir skjálftar skullu á með skömmu millibili og segir hún að skjálftinn í gær hafi verið mun öflugri. Heima hjá Líney fór allt úr skorðum, vatnspípur hrukku í sundur og rafmagnið er farið af.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×