Innlent

Allar virkjanir í neðri Þjórsá staðfestar

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra hefur staðfest aðalskipulag Skeiða- og Gnúpverjahrepps vegna Holta- og Hvammsvirkjana. Þar með eru allar virkjanirnar þrjár, sem áformaðar eru í neðri Þjórsá, komnar inn á aðalskipulag.



Í framhaldi af dómi Hæstaréttar fyrir tíu dögum, þar sem Flóahreppur hafði sigur í máli gegn Svandísi, staðfesti hún síðastliðinn föstudag aðalskipulag hreppsins sem gerir ráð fyrir Urriðafossvirkjun.

En málið snertir einnig annað sveitarfélag, Skeiða- og Gnúpverjahrepp, sem brást við dómi Hæstaréttar með því að óska eftir staðfestingu umhverfisráðherra á skipulagi Holta- og Hvammsvirkjana, sem legið hafði óstaðfest í tvö og hálft ár. Skipulag vegna þeirra virkjana var einnig staðfest á föstudag, að sögn Guðmundar Harðar Guðmundssonar, upplýsingafulltrúa umhverfisráðuneytis. Þar með er allar virkjanirnar þrjár, sem Landsvirkjun áformar í neðri Þjórsá, komnar inn á aðalskipulag allra sveitarfélaga sem hlut eiga að máli.

Sjö ár eru frá því Skipulagsstofnun og þáverandi umhverfisráðherra féllust á umhverfismat fyrir virkjanirnar, en Landsvirkjun hefur lagt tæpa fjóra milljarða króna í undirbúning þeirra. Ákvörðun um að hefja virkjanaframkvæmdir er þó í raun í höndum ríkisstjórnarinnar, sem fer með eigendavaldið í Landsvirkjun, því forstjóri fyrirtæksins segist ekkert gera í andstöðu við stjórnvöld.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×