Innlent

Halldór: Ég skil ekki alveg viðkvæmnina

Erla Hlynsdóttir skrifar
Halldór Halldórsson.
Halldór Halldórsson.
„Mér dettur ekki í hug að ráðast á þessa mikilvægu stétt, kennara. Það er alveg af og frá. Ég er einfaldlega að vitna í skýrslu OECD," segir Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Félag grunnskólakennara gagnrýnir harðlega að Halldór hafi rætt þá staðreynd að kennarar á Íslandi nýta aðeins 34,7% af vinnutímasínum til eiginlegrar kennslu, sem er langt undir meðaltali annarra OECD-ríkja. Halldór viðraði þá hugmynd að kennsluskyldan yrði aukin til að mæta hagræðingarkröfum í í skólastarfi.

Í yfirlýsingu sem Félag grunnskólakennara sendi frá sér var Halldór sakaður um árásir í garð kennara.

Halldór segir þessi viðbrögð koma sér nokkuð á óvart. „Ég skil ekki alveg viðkvæmnina. Mitt hlutverk er að ræða leiðir til að ná fram lækkun rekstarkostnaðar sveitarfélaga en um leið hvernig er best að verja skólastarfið sem mest," segir Halldór.

Hann segist bæði hafa rætt þessi atriði beint við fjölda grunnskólakennara og að þeim hafi þótt mikilvægt að taka þessa umræðu, þó erfið sé.

Halldór leggur áherslu á að Samband íslenskra sveitarfélaga hafi beitt sér fyrir því að samræma aðgerðir í rekstrarniðurskurði um allt land og telur að það auki jafnræði nemenda til náms, óháð því hvar þeir búa. „Sveitarfélögin hafa verið að fara misjafnar leiðir og það dregur að okkar mati úr jafnrétti til náms," segir Halldór.


Tengdar fréttir

Nýta tæp 35% af tíma sínum í kennslu

Kennarar á Íslandi nýta einungis um 34,7% af vinnutíma sínum í kennslu sem er langt undir meðaltali annarra OECD ríkja. Hægt væri að lækka rekstrarkostnað umtalsvert með því að hækka kennsluhlutfall kennara að mati Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Saka Halldór um árásir og andúð í garð kennara

"Ekki verður annað séð en að inngrip formanns Sambands sveitarfélaga sé eingöngu ætlað að skapa andúð almennings á störfum kennara. Með því er verið að reyna að réttlæta áframhaldandi niðurskurð sveitarfélaga í skólamálum," segir í yfirlýsingu sem Félag grunnskólakennara hefur sent frá sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×