Innlent

SAF: Umfang gistirýmis án starfsleyfa er gríðarlegt

Samtök ferðaþjónustunnar hafa gert úttekt á framboði gistirýmis á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri og skoðað hótel, gistiheimili, íbúðir og heimagistingu þar sem leigt er til skamms tíma til ferðamanna en slíkir staðir þurfa starfsleyfi skv. lögum.

Í tilkynningu frá samtökunum segir mikilvægt að ljóst sé á hverjum tíma hvert framboð gistirýmis sé og að grunur hafi leikið á að mikið sé um gististaði án starfsleyfa. „Þar sem þessar upplýsingar eru hvergi til staðar hjá opinberum stofnunum var ákveðið að fara í þessa vinnu.  Ástæða hennar er þríþætt; vegna samkeppnismála, öryggismála og nauðsyn réttra hagtalna.“

Niðurstaðan er sláandi að mati samtakanna en umfang gistirýmis án starfsleyfa á höfuðborgarsvæðinu er 1238 rúm og á Akureyri eru 577 rúm án starfsleyfa. „Samkvæmt frumvarpi sem liggur fyrir Alþingi um gistináttagjald á að greiða gjald á hverja gistinótt. Stjórnendur í gistirekstri spyrja stjórnvöld hvernig þau hyggist innheimta gjaldið af sanngirni ef svo stór hluti gistimarkaðarins kemst upp með að starfa án allra starfsleyfa.“



Á höfuðborgarsvæðinu eru íbúðir langstærsti hluti leyfislauss gistirýmis en á Akureyri eru það íbúðir og gistiheimili.

„Upplýsingar um alla leyfislausa gististaði verða sendar til viðkomandi leyfisveitenda sem þurfa að sjá til þess að allir gististaðir sæki tafarlaust um lögboðið starfsleyfi og uppfylli þar með kröfur sem gerðar eru til allra gististaða sem þjóna ferðamönnum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×