Innlent

Ég er hömlulaus ofæta - Missti 200 kíló alls

Erla Hlynsdóttir skrifar
OA-samtökin eru endastöð margra sem hafa reynt allar aðrar leiðir til að ná tökum á matarfíkninni
OA-samtökin eru endastöð margra sem hafa reynt allar aðrar leiðir til að ná tökum á matarfíkninni Sviðsett mynd úr safni
„Ég vinn miklu betur úr áföllum í lífi mínu. Ég fell ekki lengur saman. Ég þarf ekki lengur að innbyrða 5 þúsund kalóríur því einhver í vinnunni sagði eitthvað við mig sem mér leið illa út af," segir kona um fimmtugt sem hefur glímt við offitu frá því hún var unglingur. Hún hefur verið í OA-samtökunum í þrjú ár og segir þau bókstaflega hafa bjargað lífi sínu.

„Ég hef rokkað frá því að vera 50 kíló og upp í að vera yfir 100 kíló. Ég hef alltaf hætt að vigta mig þegar ég hef náð 110 kílóum. Alls hef ég misst um 200 kíló yfir ævina með því að þyngjast og léttast og rokka endalaust í þyngd. Í eitt skiptið fór ég niður um 30 kíló á sex mánuðum en á næstu fimm mánuðum eftir það fór ég aftur upp um 20 kíló. Ég er hömlulaus ofæta. Ég er fíkill í mat," segir konan.

OA-samtökin byggja á 12 spora kerfinu líkt og AA-samtökin. Helsti munurinn er sá að í stað orðanna „áfengi" og „alkóhólisti" koma „matur" og „matarfíkill."

OA stendur fyrir „overeaters" sem merkir ofætur og „anonomous" sem stendur fyrir nafnleysi. Meðlimir samtakanna tjá sig í skjóli nafnleysis á fundum og því kemur konan hér ekki fram undir nafni.



Þeir sem þjást af matarfíkn geta ekki stoppað eftir að borða eina sneið af skúffuköku. Oft enda þeir á því að borða alla kökuna
Ofát bak við luktar dyr

„Nafnleyndin gerir það að verkum að maður getur talað um hluti sem maður myndi veigra sér við að tala um við bestu vinkonu sína. Ég borðaði mikið í felum. Ég lokaði mig af og borðaði. Mest af mínu ofáti hefur farið fram bak við luktar dyr. Þessu fylgir rosalega einangrun," segir konan.

AA-samtökin hafa skapað sér fastan sess í umræðunni en konunni finnst eins og folk líti á það sem meira feimnismál að vera í OA-samtökunum. Oft skortir almenning einnig skilning á hvað felst í því að vera hömlulaus ofæta.

Bara eina litla kökusneið?


„Fólk á erfitt með að skilja að ég get ekki fengið mér bara eina litla kökusneið. Ef ég geri það þá borða ég alla kökuna og held svo áfram að borða yfir mig næstu mánuði. Fólk sem ekki er haldið sykur- og matarfíkn attar sig illa á þessu. Ég hef oft lent í því að vera stödd í veislu og fólk spyr mig hissa hvort ég sé enn í þessum samtökum og hvort ég geti ekki farið að borða kökur aftur því ég hef staðið mig svo vel. Það myndi enginn segja við óvirkan alkóhólista: Geturðu ekki bara fengi þér einn lítinn bjór?"

Þrátt fyrir að hafa verið í OA-samtökunum í þrjú ár hefur konan fallið á þessu tímabili. Alltaf hefur hún þó haldið áfram að mæta á fundi og ekki látið deigann síga.

OA er ekki megrunarklúbbur og meðlimum er ekki sett skilyrði um þyngdartap. „Eina skilyrðið er löngun til að hætta hömlulausu ofáti," segir konan.

Að ganga til liðs við samtökin var hennar lokatilraun til að ná tökum á fíkn sinni í mat. „Mér fannst þetta ofsalega skrýtið fyrst en ég vissi alveg eftir fyrsta fundinn að ég ætti heima í þessum samtökum," segir hún.

Vel skipulagðir matseðlar og rétt samsetning máltíða hjálpa mörgum að ná tökum á matarfíkninniMynd úr safni / Stefán
Ekki allir í samtökunum feitir

Konan leggur áherslu á að í samtökunum sé fólk af öllum stærðum og gerðum. „ Það kom mér eiginlega mest á óvart að sjá þarna tágranna karlmenn tala um sömu tilfinningar og ég hafði upplifað. Það eru ekki allir feitir eins og sumir myndu kannski halda. Það er fólk í samtökunum sem hefur aldrei verið feitt en hefur átt við vandamál með mat að stríða," segir hún.

Meðlimir OA tala um að vera í fráhaldi, það er að halda sig frá þeim mat sem þeir eru veikir fyrir. Samtökin hvetja til þess að fólk leiti sér aðstoðar heilbrigðisstarfsmanna ef á þarf að halda vegna ofþyngdar og ekki eru ákveðnir matseðlar sem fólki er sagt að fara eftir. Þó er algengast að fólk haldi sig frá sykri og öðrum einföldum kolvetnum.

Missti 50 kíló af sálinni


Konan sem hér segir sögu sína er ekki komin í kjörþyngd. „En kílóin eru ekki aðal atriðið. Mér finnst eins og ég hafi misst 50 kíló af sálinni. Mér líður svo mikið betur. Ég notaði mat til að sefa tilfinningar. Ég notaði mat til að gleðjast og notaði mat til að syrgja. Ég þarf þess ekki lengur. Líf mitt hefur aldrei verið í jafn miklu jafnvægi," segir konan.

Líkt og hjá AA-samtökunum eru meðlimir með trúnaðarmenn sem þeir geta leitað til og konan sem hér segir sögu sína er komin svo langt í ferlinu að hún er sjálf orðinn trúnaðarmaður, sem hún segir að sé afar dýrmætt.

OA-samtökin á Íslandi halda kynningarfund í kvöld, mánudag. Fundurinn fer fram í húsnæði SÁÁ, Efstaleiti 7 í Reykjavík klukkan 21.00. Þar munu þrír OA-félagar segja sögu sína.

OA-samtökin standa fyrir fjölda funda í hverri einustu viku, í Reykjavík, Hafnarfirði, Akureyri, Reykjanesbæ og Egilstöðum.

Nánari upplýsingar eru á vefsíðu samtakakanna OA.is.

Þar er einnig hægt að taka OA-sjálfspróf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×