Innlent

Meðmælaganga leikskólastjórnenda á fund borgarstjóra

Leikskólabörn í snjónum
Leikskólabörn í snjónum Mynd úr safni / GVA
Meðmælaganga þar sem mælt er með því að Reykjavíkurborg endurskoði sameiningar- og niðurskurðartillögur á leikskólum verður haldin í dag. Fyrir göngunni standa leikskólastjórnendur og aðstoðarleikskólastjórnendur í borginni sem ganga á fund borgarstjóra í hádeginu.

Meðmælendurnir munu þar halda á spjöldum með einkunnarorðum hvers leikskóla og er ætlunin að leggja spjöldin niður að fótum borgarstjóra með táknrænum hætti. Einnig verður borgarstjóra, Jóni Gnarr, afhent áskorun þar sem hann er hvattur til að endurskoða niðurskurðartillögurnar.

„Þessi hugmynd kemur frá grasrótinni. Ég mæti þarna bara eins og hver annar stuðningsmaður," segir Ingibjörg Kristleifsdóttir, formaður Félags leikskólastjórnenda. „Ég er svo montin af þessu," segir Ingibjörg um framtak starfsfélaga sinna.

Í Félagi leikskólastjórnenda eru nú 517 manns en eftir uppsagnir verða stjórnendurnir á fjórða hundraðið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×